Síldarvinnslan gaf HSA 11 milljónir til tækjakaupa
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. ágú 2022 08:35 • Uppfært 30. ágú 2022 09:48
Síldarvinnslan í Neskaupstað færði Heilbrigðisstofnun Austurlands ellefu milljónir til tækjakaupa við vígslu minningarreits í síðustu viku.
Reiturinn stendur á grunni gömlu fiskimjölsverksmiðjunnar sem eyðilagðist í snjóflóðunum árið 1974. Þar eru komnir minnisvarðar til minnisvarða um þá 12 starfsmenn sem farist hafa við störf fyrir fyrirtækið, sjö þeirra fórust í flóðunum.
Reiturinn var afhjúpaður síðasta fimmtudag og við það tækifæri færði Síldarvinnslan Heilbrigðisstofnun Austurlands ellefu milljónir króna til tækjakaupa.
„Við gerum okkur grein fyrir að Síldarvinnslan gegnir afar mikilvægu hlutverki í samfélaginu, einkum á Austurlandi. Mannauðurinn gegnir lykilhlutverki í starfsemi hvers fyrirtækis. Í starfsmannastefnu þess er lögð áhersla á traustan og góðan starfsanda. Stærsta áskorun stjórnenda er að fá hæft fólk. Auk góðs starfsanda þurfa innviðir samfélagsins að vera traustir.
Síldarvinnslan vill hafa jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfi sitt, svo sem með stuðningi við félagasamtök og stofnanir sem þjóna almenningi. Ein af grunnstöðum hvers samfélags er að hafa öfluga heilbrigðisþjónustu og við viljum leggja okkar af mörkum til að tryggja að fólk hafi aðgang að slíkri þjónustu,“ sagði Þorsteinn Mar Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSA, veitti styrknum viðtöku. Hún sagði hann nýtast til kaupa á nýjum speglunartækjum fyrir skurðstofu sjúkrahússins í Neskaupstað.
Til stendur að kaupa sambærileg tæki og notuð eru á Landsspítalanum. Nína sagði að með því væri auðveldara fyrir afleysingafólk að koma inn á spítalann sem væntanlega myndi auðvelda að fá fólk en hún kvað það vera helstu áskorun stofnunarinnar eins og er. Að auki batnar greiningargetan.
Þorsteinn Mar sagðist við athöfnina vonast til þess að minningarreiturinn falli Norðfirðingum vel í geð. „Á lífsleiðinni skiptast á skin og skúrir, gleði og sorg. Við áföll og missi er gott að geta leitað á friðsaman og hlýlegan stað þar sem aðstaða er fyrir fólk til að setjast niður og njóta kyrrðar.
Megi þessi fallegi og vel gerði staður vera skjól og um leið virðingarvottur við þá sem látist hafa og aðstandendur.“
Mynd: Aðsend