Síldarvinnslan hefur ekki undan að vinna makrílinn
Uppsjávarveiðiskipið Börkur NK er nú á leið til Noregs með rúmlega 900 tonn af makríl þar sem fiskiðja Síldarvinnslunnar (SVN) hefur ekki undan að vinna fiskinn. Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem skip sem venjulega landa makríl í Neskaupstað halda erlendis í staðinn.
Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins en Börkur NK ætti að lenda í Álasundi í Noregi í kvöld þar sem aflanum verður landað. Áður hafði Vilhelm Þorsteinsson EA landað makrílfarmi í Færeyjum.
Makrílveiði almennt gengið vel hingað til og fiskurinn nokkuð góður þessi dægrin en Hálfdán Hálfdánarson, skipstjóri, á Berki, segir veiðisvæðin nú vera „langt norður í rassgati.“ Svo langt norður reyndar að skipið hafi aldrei áður veitt makríl svo norðarlega.
„Við enduðum norðan við sjötugustu og fyrstu gráðu og þá vorum við komnir norður fyrir Noreg og Jan Mayen er vestur af veiðisvæðinu. Það voru vel yfir 500 mílur í Norðfjarðarhorn. Við höfum aldrei áður veitt makríl svona norðarlega.“