Síldarvinnslan kaupir Vísi í Grindavík
Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur keypt allt hlutafé sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis hf. Í Grindavík. Kaupverð hlutafjár er 20 milljarðar króna, sem að stórum hluta er greitt fyrir með hlutabréfum í Síldarvinnslunni. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.Þetta kemur fram í tilkynningu sem Síldarvinnslan sendi inn til Kauphallarinnar upp úr klukkan tíu í gærkvöldi.
Viðskiptin nema alls 31 milljarði króna, því auk hlutafjárins eru vaxtaberandi skuldir Vísis um 11 milljónir. Greitt er fyrir 30% kaupanna með reiðufé en 70% með bréfum í Síldarvinnslunni. Þar með verða fyrrum eigendur Vísis meðan kjölfestufjárfesta í Síldarvinnslunni. Þetta er með þeim fyrirvara að hluthafafundur Síldarvinnslunnar samþykki aukningu hlutafjár og að hluthafar falli frá áskriftarrétti. Önnur skilyrði eru fullnægjandi niðurstaða áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Vísir gerir út fjögur skip í aflamarkskerfinu og tvo báta í krókaaflamarki. Það rekur saltfiskvinnslu og hátækni bolfiskvinnslu í Grindavík, auk þess að eiga dótturfélög erlendis. Væntar aflaheimildir á næsta fiskveiðiári eru um 15 þúsund þorskígildistonn. Ársverk voru 250, ársveltan rúmir 10 milljarðar króna og hagnaður um 800 milljónir.
Vísir er fjölskyldufyrirtæki og verður Pétur Hafsteinn Pálsson áfram framkvæmdastjóri. Í tilkynningunni segir að Vísir verði rekið sem dótturfélag Síldarvinnslunnar og starfsemin í Grindavík verði öflugri og framsækni sem ýti undir samkeppnishæfni og sjálfbærni til lengri tíma í sátt við umhverfið.
Höfuðstöðvar bolfiskvinnslunnar í Grindavík
Viðskiptin styrki bæði fyrirtækin til lengri tíma því alþjóðlegt sölu- og markaðsstarf félaganna eflis. Höfuðstöðvar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar verði í Grindavík.
„Kaupandi og seljendur eru sammála um að með þessum viðskiptum er verið að styrkja bæði félögin til framtíðar. Starfsemin verður öflugri og tryggir samkeppnishæfni til lengri tíma litið. Höfuðstöðvar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar hf. verða hjá Vísi hf. í Grindavík, enda þar starfrækt hátæknivinnsla og mikil þekking og mannauður til staðar. Við sjáum fyrir okkur mikil tækifæri á vinnslu sjávarafurða í Grindavík, meðal annars vegna aukins fiskeldis á svæðinu á komandi árum.
Ég tel að þessi viðskipti séu til mikilla hagsbóta fyrir alla aðila enda er sjávarútvegurinn alþjóðleg atvinnugrein sem þarf að standast harða samkeppni. Til lengri tíma litið ættu viðskiptin því að efla samkeppnisstöðu sjávarútvegs og þjónustu í Grindavík,“ er haft eftir Gunnþóri Ingvasyni, forstjóra Síldarvinnslunnar.
Tækifæri fyrir Grindavík
„Við, eigendur Vísis hf. færum með þessu móti hlutabréf okkar yfir í annað sjávarútvegsfélag sem er á almennum hlutabréfamarkaði og verðum með því meðal annarra kjölfestufjárfesta í öflugu sjávarútvegsfélagi.
Við erum þess fullviss að forsendur þess að byggja upp bolfiskvinnsluna í Grindavík eru réttar og munu standast tímans tönn. Þegar við bætast svo allir möguleikarnir sem tengjast laxeldinu getum við ekki annað en verið bjartsýn og þakklát fyrir að vera þátttakendur í þessari vegferð og þeirri framtíðarsýn sem hér er lögð til grundvallar í okkar heimabyggð.
Við erum einnig stolt af starfsfólki Vísis sem fær með þessu enn frekari tækifæri til þess að takast á við þessa öflugu atvinnusköpun í Grindavík. Þessi atriði gera þessa stóru ákvörðun okkar léttari,“ segir Pétur Hafsteinn.
Með viðskiptunum er útlit fyrir að núverandi fiskveiðiheimildir Síldarvinnslunnar hf. verði lítillega yfir gildandi viðmiðunarmörkum. Komi til þess hefur félagið sex mánuði til að laga sig að þessum viðmiðum. „Veiðiheimildir í uppsjávartegundum – einkum loðnu - eru breytilegar milli ára og hafa því óhjákvæmilega áhrif á kvótaþak frá ári til árs. Enn ríkir óvissa um úthlutanir í aflaheimildum uppsjávarfisks á næsta ári,“ segir í tilkynningunni.