„Sjúkrahús án lækna er ekki sjúkrahús“
„Þetta hefur gerst reglulega um 30 ára skeið hér með tilheyrandi áhyggjum og stressi þeirra sem þurfa langar leiðir á fæðingardeild og HSA verður að fara að koma skikki á þetta,“ segir Halldóra Hildur Eyþórsdóttir, en tengdadóttir hennar er ein þeirra sem halda þurfti á fæðingardeildina á Akureyri þegar ljóst varð að fæðingardeildin í Neskaupstað yrði lokuð út þessu viku.
Eins og Austurfrétt skýrði frá í gær hefur skortur á svæfingarlækni orðið þess valdandi að þær sem eiga von á sér hér austanlands næstu sólarhringa þurfa norður eða suður til að fá þjónustu. Tengdadóttir Halldóru fór norður og lenti þar í sama vandamáli og var til staðar fyrr í sumar að ekki fékkst gisting á sjúkrahóteli á Akureyri. Góðu heilli gátu ættingjar komið henni og manni hennar til aðstoðar.
Annað austfirskt par sem á von á barni á næstu dögum gerði sér ferð á fæðingardeildina á Landspítalanum í Reykjavík. Kostnaður þeirra við flugið eitt og sér með litlum fyrirvara fram og aftur um 115 þúsund krónur.
Halldóra segir þetta mikla hneisu því öll aðstaða í Neskaupstað sé góð og toppfólk þar að störfum. Auðvitað sé kannski ekki alltaf auðvelt að fá lækna austur en á því verði að finna varanlega lausn.
„Að mínu viti þarf HSA [Heilbrigðisstofnun Austurlands] að koma því þannig fyrir að hér í fjórðungnum sé lágmarks þjónustu allan ársins hring. Að loka þurfi deildum vegna þess að einhver fer í frí er alveg einstaklega fáránlegt að mínu mati. Hér keppast allir um að hafa bjóða sem besta innviði eins og í leikskólum og slíku en svo er ekki alltaf hægt að taka á móti nýjum þegnum fjórðungsins. Þetta getur ekki átt að vera svona því sjúkrahús án lækna er ekki sjúkrahús. Við eigum miklu betra skilið hér fyrir austan en svona nokkuð ár eftir ár.“
Góð aðstaða er á fæðingardeild Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað en þar lokar allt þegar einn læknir fer í frí að sögn Halldóru. Mynd Heilbrigðisráðuneytið.