Skipin leita að makrílnum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. ágú 2022 15:45 • Uppfært 19. ágú 2022 15:45
Austfirsku uppsjávarveiðiskipin leita nú að makríl á ný eftir góða veiði í og við íslensku landhelgislínuna um miðja vikuna.
„Makríllinn fór yfir línuna á þriðjudag og skipin voru við veiðar í tvo daga eftir það. Núna er veiðin búin þar aftur og skipin eru farin aftur yfir línuna út á alþjóðasjó að leita.
Það eru líka skip austast í alþjóðasjónum en þar er líka rólegt,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.
Skip félagsins, Hoffell, hélt í gærmorgunn út á ný eftir að hafa landað 1410 tonnum. Skipið hefur þar með borið 5.000 tonn að landi síðan það kom til félagsins um miðjan júní, þar af 4700 tonnum af makríl.
Skipið fékk 1.000 tonn skammt austan við íslensku landhelgislínuna. „Það var búið að vera mjög rólegt vikuna undan en síðan kom mjög gott skot. Hoffellið fékk sinnafla á tveimur dögum. Þetta var fiskur úr alþjóðasjónum sem skipið fylgdi yfir að línunni.“
Atgangur var í austfirskum höfnum í vikunni þegar skipin komu eitt af öðru inn til löndunar eftir góða veiði og langt úthald. „Það voru allir á sama tíma eftir að hafa leitað í viku,“ útskýrir Friðrik.
Miklu munar um staðsetningu fisksins upp á hve langt er að sigla til heimahafnar. Hoffellið hefur lengst þurft í tveggja sólarhringa siglingu, aðra leið í sumar en var 20 tíma á leið heim úr síðasta túr.
Dreifing skipa Brims, sem landa á Vopnafirði, sýnir glögglega stöðu makrílveiðanna í dag. Venus er á Vopnafirði, kom þangað í gærmorgunn til að landa. Víkingur er austan við íslensku landhelginnar að leita en Svanur austast á alþjóðasvæðinu. Þangað er um 30 tíma sigling.