„Skiptir okkur miklu máli að stuðla að góðum flugsamgöngum innanlands“

Forstjóri Icelandair segir starfsfólk fyrirtækisins gera allt sem í þess valdi standi til að greiða úr röskunum sem orðið hafa á innanlandsflugi síðustu daga. Viðhald véla hefur dregið úr sveigjanleika í fluginu.

Þetta kemur fram í færslu sem Bogi Nils skrifaði í dag í Facebook-hópinn „Dýrt innanlandsflug – þín upplifun.“

Hann segir að Icelandair, sem annast áætlunarflug til Egilsstaða, Akureyrar og Ísafjarðar, hafi síðustu mánuði staðið frammi fyrir miklum áskorunum við að halda uppi ásættanlegri flugáætlun innanlands.

Í upphafi árs hafi veðrið haft áhrif. Síðan tafir á afhendingu flugvéla úr viðhaldsskoðun, vegna aðstæðna í heiminum eftir Covid-faraldurinn. Auk þess hafi óvænt tæknileg vandamál vegið þungt. Þar með hafi sveigjanleiki í flotanum minnkað á sama tíma og eftirspurn eftir innanlandsflugi hafi vaxið hratt.

Bogi Nils, sem uppalinn er á Eskifirði, segir að umræðan um ástandið í fluginu hafi ekki farið framhjá fulltrúum Icelandair og fólk geti treyst því að starfsfólks Icelandair vinni hörðum höndum að því að vinna úr aðstæðum.

Eins og Austurfrétt greindi frá í fyrr í dag er útlit fyrir áframhaldandi seinkanir á flugi næstu daga þar sem ekki verður hægt að greiða úr vandamálum TF-FXA, 76 sæta vélar, fyrr en einhvern tíma í næstu viku.

„Að stuðla að góðum flugsamgöngum innanlands og veita góða þjónustu skiptir okkur miklu máli. Það lítur út fyrir áframhaldandi áskoranir en það er ávallt í forgangi hjá okkur að koma öllum farþegum á sinn áfangastað. Við skiljum ykkar aðstæður og vinnum að því að gera þjónustu í innanlandsflugi betri,“ skrifar Bogi Nils. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.