Skoða breytta legu suðurleiðar

Vegagerðin hefur kynnt fyrir Múlaþingi hugmyndir um að væntanleg suðurleið frá Fjarðarheiðargöngum verði færð innar heldur en áður var ráð fyrir gert til að rýma fyrir mögulegu byggingarlandi. Jafnframt er hafin skoðun á að byggja nýja brú yfir Lagarfljót innar en til þessa hefur verið áætlað.

Nýju veglínuna má finna í vinnslutillögu að breytingum á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs. Hún fer frá væntanlegum vegi frá gangamunnanum í Egilsstaði ofar en eldri tillaga að suðurleið og lengra inn fyrir þéttbýlið. Hún verður síðan tengd með sérstökum vegi við iðnaðarsvæðið að Miðási.

„Fulltrúar sveitarfélagsins báðu um að við myndum skoða þessa leið nánar til að ná betra byggingarsvæði til framtíðar. Við gerðum það og sýndum þessa tillögu á samráðsfundi,“ segir Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi.

Vegagerðin hafði áður lagt fram þrjár mögulegar veglínur frá göngunum. Í fyrsta lagi miðleið, sem fer niður í gegnum bæinn eins og í dag, norðurleið sem fer niður með Eyvindará að utanverðu og loks suðurleiðina. Vegagerðin telur suðurleiðina besta kostinn.

Leiðarkostirnir eru umdeildir. Í byrjun júlí skrifuðu ríflega 100 manns undir beiðni til Skipulagsstofnunar um að endurskoða framkomið umhverfismat. Er þar meðal annars hvatt til að skoða breytingar á norðurleiðinni sem bætt geti hana, hvatt til þess að endurmata kostnað og útreikninga á þjóðhagslegum ábata leiðanna og áform um að afleggja núverandi veg yfir Egilsstaðaháls.

Við umræður um vinnslutillöguna á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings bókaði Sveinn Jónsson, fulltrúi Miðflokks, að hann teldi vinnslutillöguna ótímabæra og sóun á fjármunum sveitarfélagsins þar sem hún byggði á „illa ígrunduðum“ niðurstöðu umhverfismatsskýrslunnar sem aftur væri reist á rangri framsetningu og rangtúlkun á rannsóknum.

Lagarfljótsbrúin fari innar

Fleira tengist inn í leiðarvalið svo sem stórar ákvarðanir um nýja Lagarfljótsbrú og þróun Egilsstaðaflugvallar til framtíðar. Á fundinum í sumar kynnti Vegagerðin möguleg brúarstæði og veglínur sem tengjast suðurleiðinni. „Þetta er á frumstigi en við vorum með mynd á þessum fundi þar sem sýnt var afmarkað svæði sem er til umræðu,“ staðfestir Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri.

Brúarstæðið sjálft yrði væntanlega utan við Egilsstaðabýlið og kæmi að landi við sumarhúsin sem eru í landi Skipalækjar. „Ný Lagarfljótsbrú er á þriðja tímabili samgönguáætlunar en það stendur til að endurskoða áætlunina. Við vonum að brúin endi á öðru tímabili. Svona framkvæmd þarf langan undirbúning, til dæmis í umhverfismat, og þess vegna veitir ekki af því að ákveða hvernig þetta eigi að vera. Við ræddum um að setjast aftur niður í haust og reyna að nálgast þetta mál með einhverjum hætti,“ bætir Sveinn við.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, kveðst spennt fyrir þeim tillögum Vegagerðarinnar sem nú hafa verið kynntar. „Það er mikilvægt að skoða þetta allt í samhengi, stækkun flugvallarins, Lagarfljótsbrúna og nýjustu tillögu Vegagerðarinnar um suðurleiðina.

Nýja suðurleiðin breytir miklu og skapar meira land til stækkunar bæjarins. Með því að staðsetja Lagarfljótsbrúnna innarlega þá næst að koma þjóðvegi að miklu leyti út fyrir bæinn og mögulega inn fyrir Fellabæ.“

Athugasemdafrestur við nýja aðalskipulagstillögu er til 25. ágúst. Um svipað leiti er að vænta álits Skipulagsstofnunar á umhverfismatsskýrslu leiðakostanna. Stefnt er á að endanlegt leiðarval frá Fjarðarheiðargöngunum liggi fyrir í október.

Nýja suðurleiðin fjólublá á kortinu en sú eldri bláleit. Norðurleiðin er gul og miðleiðin rauð. Mynd: Múlaþing

sudurleid ny agust22

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.