Skoða þarf stöðu hreindýranna á Fljótsdalsheiði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. sep 2022 12:02 • Uppfært 05. sep 2022 18:31
Um 400 dýr eru enn óveidd þegar um tvær vikur eru eftir af hreindýraveiðitímabilinu. Mikið hefur verið veitt í góðu veðri síðustu daga. Veiðar á svæði 2 hafa hins vegar gengið afar treglega. Sérfræðingur telur rétt að skoða aðgerðir til að fjölga dýrunum þar á nýjan leik.
Í morgun voru um 400 dýr eftir af 1021 dýra heildarkvóta, sem var töluvert minni en síðustu ár. Veiðum á törfum lýkur eftir tíu daga en heimilt er að veiða kýr fram til 20. september. Inni í heildartölunni eru 48 kýr sem veiða má í nóvember.
Um miðja síðustu viku voru enn ríflega 480 dýr óveidd. Ekki er nýtt að veiðimenn bíði þar til í restina í von um að fá sem vænst dýr en mikið hefur verið veitt síðustu daga enda tíðin verið góð. Áfram þarf þó að halda eigi kvótinn að nást en framundan er síðasta helgin til tarfaveiða. Hlutfallslega er álíka mikið af kvótanum og síðustu ár.
Þegar er reyndar ljóst að ekki verður veitt upp uppgefinn kvóta því veiðimönnum á svæði 2, sem í grófum dráttum má lýsa sem svæðinu milli Jökuldals og Skriðdals, hefur verið leyft að skila inn úthlutuðum leyfum og fá þau endurgreidd. Þeim leyfum verður ekki endurúthlutað.
Ástæðan er að mjög fá dýr hafa verið á svæðinu, sem í áraraðir hefur verið helsta búsetusvæði hreindýranna. „Það væri sennilega hægt að ná þessum kvótanum en þá væri gengið mjög nærri þeim dýrum sem eru á svæðinu,“ segir Jóhann G. Gunnarsson, sérfræðingur Umhverfisstofnunar í hreindýraveiðum.
Þetta var ákveðið eftir fundi með fagaðilum, sem og að veiðimenn með leyfi á svæðinu fengju að nýta þau á aðliggjandi svæðum. Jóhann segir það enga óskastöðu því það auki álagið annars staðar þótt staðreyndin sé sú að dýrin flakki milli svæða. Tæplega 30 veiðimenn hafa þegar nýtt möguleikann á að skila inn leyfinu.
Veiðar á svæðinu gengu einnig illa í fyrra. Þá héldu stórir hópar sig innan veiðigriðlands við Snæfell, sem nú hefur verið afnumið. Brugðist var við með að leyfa veiðar á nærliggjandi svæðum en Jóhann segir ekki hægt að byggja veiðistjórnunina til framtíðar á slíkum tilfæringum.
Þess vegna sé vert að taka umræðu um hvernig hægt sé að fá dýrin til baka inn á svæðið. „Það verða aðrir að svara því hver ástæðan er fyrir því að dýrin eru ekki lengur á því svæði þar sem þau voru flest. Mér þykir þó ljóst að það þurfi að ræða hvort hægt sé að gera eitthvað fyrir svæðið þannig að dýrin komi þangað aftur. Þarna hefur ekki verið veiðiálag síðustu tvö ár en vissulega var það meðan dýrin voru sem flest,“ segir Jóhann.
Ekki er þó óþekkt að dýrin flakki milli svæða og er reynt að aðlaga veiðikvótann að því. Svæði 2 hefur hins vegar sérstöðu fyrir að vera frekar aðgengilegt til veiða. „Ég hef heyrt það eftir eldri mönnum að dýrin hafi einu sinni farið af Fljótsdalsheiðinni. Þau virðast nú aðeins hafa breitt úr sér til norðurs, inn á svæði 1 sem í nokkur ár var tómt. Flest dýrin virðast hafa flutt sig til suðurs, á svæði 7 og 8. Þar halda þau sig inn af Hofsdal og Víðidal, erfiðum svæðum þangað sem fara þarf fótgangandi við veiða.“