Skip to main content

Skólastjórinn samdi textann við fyrsta lagið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. okt 2022 13:13Uppfært 14. okt 2022 13:50

Útgáfutónleikar nótnaheftis Sigríðar Laufeyjar Sigurjónsdóttur, Hljómar lag, voru haldnir í félagsheimilinu Hjaltalundi fyrir viku. Í heftinu eru útsetningar að 40 lögum fyrir kóra eftir Sigríði sem hún hefur samið undanfarin 20 ár.


„Þetta eru lög sem hafa orðið til hjá mér síðustu tvo áratugi við texta ýmissa höfunda, sem flestir eru héðan að austan. Lengi samdi ég bara lög og þau voru bara merkt dagsetningum. Eftir að ég flutti aftur austur þá hef ég átt samstarf við ýmsa textahöfunda,“ sagði Sigríður Laufey í þættinum Að austan sem sýndur var á sjónvarpsstöðinni N4 í gærkvöldi.

„Fyrsti textahöfundurinn sem ég vann með var Sigurður Óskar Pálsson, barnaskólastjóri á Eiðum. Ég samdi mitt fyrsta lag 13 ára gömul og var að spila það á píanó í skólanum hinu megin við vegginn þar sem kennarastofan var.

Daginn eftir réttir hann mér blað með jólatexta. Hann hafði áttað sig á hvað krakkinn var að gera. Eftir þetta samdi ég þó ekkert fyrr en 1997. Þá fóru lögin að koma á færibandi,“ rifjar hún upp.

Nótnaheftið kom upphaflega út vorið 2020 og voru útgáfutónleikar skipulagðir um miðjan mars það ár. Þeim hefur verið frestað sjö sinnum. Tónleikarnir fyrir viku voru afar glæsilegir, fram komu þrír kórar ásamt einsöngvurum.

Sigríður Laufey handskrifaði lögin en fékk Daníel Arason til að útsetja þau nánar og færa í tölvutækt form. Hann sannfærði hana um að gefa safnið út á bók. „Þetta eru fín lög, ég hefði aldrei nennt að útsetja einhver leiðinleg lög. Þetta eru lögin hennar Siggu, mér finnst þau fín og ef fleirum finnst þau góð þá er það gott mál,“ segir hann.