Skip to main content

Slá tvær flugur í einu höggi í Bjarkatúni á Djúpavogi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. okt 2022 10:15Uppfært 13. okt 2022 10:17

„Þetta höfum við stundað í töluverðan tíma og mín tilfinning er sannarlega sú að börnin eru að meðtaka boðskapinn og jafnvel gott betur en það,“ segir Guðrún Sigríður Sigurðardóttir, leikskólastjóri á Bjarkatúni á Djúpavogi.

Leikskólinn var fyrir skömmu heiðraður af Landvernd þegar hann fékk sinn fimmta svokallaða grænfána en sú viðurkenning er hluti af stærsta umhverfismenntaverkefni í veröldinni og því taka þátt um 200 skólar í landinu öllu.

Markmiðin með verkefninu eru margþætt en fyrst og fremst að bæta sitt nánast umhverfi, minnka úrgang og notkun á vatni og orku. Þá skal stefnt að eflingu samfélagskenndar og styrkja lýðræðisleg vinnubrögð hvað viðkemur ákvörðunum er varða börnin.

Guðrún segir að verkefnið hafi verið það lengi í gangi að börnin séu ósjálfrátt farin að fylgja boðskapnum án þess að einhver fullorðinn þurfi að hafa afskipti.

„Við förum reglulega í gönguferðir um náttúruna svo dæmi sé tekið og börnin eru strax og nánast ósjálfrátt farin að týna rusl sem við finnum á leiðinni. Þá eru þau afar meðvituð um að fara vel með hlutina og ef fyrir kemur að börnin sjá tendrað ljós í tómu rými þá stökkva þau til og slökkva ljósin.“

Leikskólastjórinn segir annan anga þessa tengjast Cittaslow en sem kunnugir vita er Djúpivogur hluti af þeirri hreyfingu.

„Mjög margt í Cittaslow tekur til þess sama og Grænfánaverkefnið. Það er að segja virðing fyrir sér og sínum og umhverfi sínu og að ganga vel um öllum stundum. Þannig erum við eiginlega að slá tvær flugur í einu höggi hér á Bjarkartúni.“

Börnin á leikskólanum Bjarkatúni eru strax orðin vel að sér í umhverfisvernd og fylgjast grannt með farið er yfir slík mál. Mynd Bjarkartún