Skip to main content

Umgengni um leikskólasvæðið á Vopnafirði að lagast

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. ágú 2022 13:42Uppfært 01. sep 2022 09:13

„Þetta hefur sem betur fer lagast mikið eftir að leikskólastjórinn fór niður í grunnskóla og talaði þar við unglingana,“ segir Halldóra Árnadóttir, aðstoðarleikskólastjóri í Brekkubæ á Vopnafirði.

Afar slæm umgengni hefur verið um leikskólalóðina um tíma í sumar en þar hafa einhverjir unglingar bæjarins haft viðveru á kvöldin og sóðað leiksvæðið út með ýmsu rusli, flöskum og jafnvel nikótínpúðum og lyfjum. Þetta hefur jafnframt verið ákveðið vandamál síðastliðin sumur.

„Það var ekki glæsileg aðkoman hér um tíma vegna þessa og við meira að segja fundum ummerki að einhverjir hefðu beinlínis reynt að komast inn í leikskólann. Engar alvarlegar skemmdir neitt en mjög leiðigjarnt auðvitað fyrir utan hugsanlega hættu fyrir leikskólabörnin ef þau finna eitthvað slíkt við leik á svæðinu.“

Gekk svo rammt að slæmri umgengi að Sandra Konráðsdóttir, leikskólastjóri, hélt tölu yfir nemendum í grunnskólanum og hvatti foreldra og forráðamenn til að ræða þessa hegðun við börnin sín.

Halldóra segir að nú þegar skólastarf sé hafið ættu unglingarnir að eiga auðvelt með að finna sér annað til dundurs en hangs á leikskólalóðinni en það sé vissulega minna við að hafa fyrir unglingana síðla sumars í bænum.

„Það er allavega áberandi að sóðaskapurinn hefur minnkað mikið síðustu dagana og ég vona að það verði svoleiðis áfram.“

Leikskólinn Brekkubær á Vopnafirði stendur á besta stað örskammt frá tjaldsvæði bæjarins en umgengni á leikskólasvæðinu verið mjög miður um tíma. Mynd Vopnafjörður