Slysatíðni á vegum á Austurlandi helmingast á áratug
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. ágú 2022 10:07 • Uppfært 25. ágú 2022 10:08
Slysatíðni á vegum á Austursvæði Vegagerðarinnar hefur minnkað um helming á um áratug. Tíðni á vegum eins og Fjarðarheiði og um Hólmaháls er þó í hærra lagi miðað við sambærilega vegakafla annars staðar.
Þetta kemur fram í samantekt Erlings F. Jenssonar, sérfræðings hjá Vegagerðinni, í nýjasta tölublaði Framkvæmdafrétta.
Slysatíðni er reiknuð út frá fjölda slysa miðað við umferð á ákveðnum vegarkafla. Þannig er útskýrt að 5 slys á 10 km kafla með 1000 bíla meðalumferð á sólarhring skili tíðninni 1,37. Umferðarslys er skilgreint sem óhapp með að minnsta kosti ökutæki á hreyfingu á aðild að á vegi eða svæði opinni almennri umferð.
Í samantektinni er fjallað um þróun slysatíðni á völdum vegköflum og svæðum síðastliðin tíu ár. Slysatíðni á Austursvæði, sem er frá og með Vopnafirði til og með Sveitarfélaginu Hornafirði, var mest árið 2013 1,6 en var árið 2019 komin niður í 0,8. Hún hefur lækkað áfram síðan.
Almennt hefur slysatíðni á landinu lækkað þótt fjöldi slysa sé óbreyttur. Skýrist það með aukinni umferð síðustu ár.
Í greininni eru bornir saman nokkrir vegkaflar með áþekkri umferð. Þar er til dæmis Fjarðarheiðin borin saman við Biskupstungnabraut, Ólafsfjarðarveg og Borgarfjarðarbraut. Slysatíðni á heiðinni er hæst að meðaltali þessara vega yfir tímabilið. Mest varð hún árið 2017, 1,7 en lægst 2020 0,8.
Vegurinn milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar um Hólmaháls er einnig hæstur að meðaltali í samanburði við tengingar Húsavíkur, Flúða og Vatnaleiðar við Hringveg. Sveiflur milli ára eru þó miklar. Árið 2013 er slysatíðnin á Hólmahálsinum 1,7 en komin niður í 0,4 árið 2013. Árin 2019 og 20 er hún aftur komin upp í 1,6 en undir 0,7 í fyrra.
Í greininni er vakin sérstök athygli á fjölda slysa í einbreiðum jarðgöngum meðan hún sé hverfandi í tvíbreiðum. Engin einbreið göng eru lengur í notkun á Austurlandi en í fjórum slíkum á Norðurlandi og Vestfjörðum er slysatíðnin að meðaltali 2,51 meðan hún er 0,35 í tvíbreiðum göngum. Ekki er gerður greinarmunur milli einstakra gangna í samantektinni en Norðfjarðar- og Fáskrúðsfjarðargöng eru inni í meðaltalinu.
Tíðni umferðarslysa á Íslandi er lægri en víðast í Evrópu en áþekk og á Norðurlöndunum. Almennt er þó talið að slys séu vanskráð af ýmsum orsökum. Oftast má rekja þau til mannlegra mistaka. Erlendar rannsóknir telja 3% beint af völdum ástands vega en umhverfisaðstæður sé meðorsök í þriðjungi tilfella. Vegagerðin heldur utan um slysatíðni á vegköflum með það að að markmiði að bæta úr og fækka slysum.