Skip to main content

Blautt og sólarlaust alla Verslunarmannahelgina á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. júl 2022 09:49Uppfært 29. júl 2022 09:51

Veðurspám fyrir þessa Verslunarmannahelgi ber að mestu saman um að á öllu Austurlandi verði bæði kalt miðað við árstíma og töluverðar skúrir alveg fram á mánudag. Hugsanlega slydda á hálendinu í kvöld og á morgun. Hvergi mun sjást til sólar.

Austurfrétt tók stöðuna hjá fjórum mismunandi veðurþjónustuaðilum á vefnum fyrir þessa stærstu ferðamannahelgi ársins en útkoman að stærstu leyti keimlík hjá þeim öllum.

Samkvæmt Veðurstofu Íslands nær hitastig 12 til 13 stigum frameftir degi en svo kólnar duglega niður í 5 til 8 stig þegar kemur fram á kvöldið og töluverð rigning bætist þá við víðast hvar. Það hitastig hangir líka yfir fjórðungnum að mestu á laugardeginum en hæsta hitastig á Egilsstöðum þann dag eru heil 8 stig. Töluvert hvessir þegar líða fer á laugardaginn og áfram rignir verulega. Sunnudagurinn hlýrri þega hitatölur eiga að ná 12 til 13 stigum og dregur nokkuð úr vindi. Sólarlaust með öllu alla helgina.

Norska veðurstofan er á svipuðu róli en munurinn sá að þeir norsku telja meiri líkur en minni á að það rigni líka á mánudag og hitastigið fari alla leið niður í 4 stig þegar verst lætur á laugardag. Sólarlaust með öllu.

Hjá Belgingi eru fræðingar á því að hitastig síðla í dag fari varla yfir 8 stig en á móti þá spá þeir nokkuð minni rigningu en þeir fyrrnefndu. Sömuleiðis á að rigna töluvert á laugardag en ívið minna en Veðurstofa Ísland og Meteorologisk Institutt spá fyrir um. Þar endar það jákvæða því Belgingsmenn spá töluverðu hvassviðri alls staðar á Austurlandi. Allt upp í 14 til 15 metra á sekúndu á morgun og mögulega bálhvasst síðla sunnudags þegar vindstyrkur gæti náð 18 metrum. Sólarlaust með öllu.

Hjá hinum alþjóðlega Weather Underground eru spár næstu daga á pari við tölur Belgings. Mikil rigning í kvöld og á morgun en dettur niður í skúrir á sunnudag og mánudag. Hvasst víðast á Austurlandi og hvergi sést til sólar.

Sól og blíða í Neskaupstað fyrir réttu ári síðan. Engar líkur eru á slíkri blíðu þessa helgina samkvæmt veðurspám.