Sótt um 16 milljónir úr menningarsjóð en aðeins tæpar tvær aflögu hjá Múlaþingi
Alls sóttu 20 einstaklingar og stofnanir um sextán milljóna króna styrk úr seinni úthlutun sérstaks Menningarstyrks Múlaþings en slíkir styrkir eru veittir tvívegis árlega. Til úthlutunar voru tæpar tvær milljónir króna
Byggðaráð Múlaþings auglýsti í byrjun september til umsóknar styrki til menningarstarfs í sveitarfélaginu en slíkir styrkir eru veittir tvisvar árlega. Fyrri úthlutun fer fram í janúar ár hvert en síðastliðinn janúar var úthlutað alls 8.2 milljónum króna.
Við úthlutun nú var lögð sérstök áhersla á að styrkja þá aðila sem ekki fengu úthlutað í janúar en hæsti styrkurinn nú var 300 þúsund krónur sem kom í hlut Blábjargar ehf. á Borgarfirði eystri. Styrkinn á að nýta í að fjölga viðburðum í bænum yfir vetrartímann og meðal annars koma á fót jólaþorpi.
Heiðveig Agnes Helgadóttir fékk 275 þúsund til að færa mikið safn greina og ritaðs efnis úr fórum Helga Hallgrímssonar, fræðimanns, á netið. Kór Egilsstaðakirkju fékk 200 þúsund vegna vorferðar sem farin var til Hvammstanga. Tvö hundruð þúsund fóru til Leikfélags Fljótsdalshéraðs til uppsetningar á leikritinu Gulleyjunni og þá fékk Litten Nyström sömu upphæð til að nýta liti Austurlands sem svæðisbundnar liti í litarefni og búa til liti sem ferðast geta um heim allan og komið svæðislitunum á heimskortið. Fjögur önnur verkefni hlutu lægri styrki að þessu sinni.
Hjá Blábjörgu vilja menn fjölga viðburðum að vetrarlagi á Borgarfirði eystra og og íslenskt jólaþorp er í undirbúningi.