Stanslausar æfingar í samningatækni í þrjá daga

Ríkissáttasemjari stóð í vikunni fyrir þriggja daga námskeiði í samningatækni fyrir samninganefndir í kjarasamningum á Hótel Héraði á Egilsstöðum. Sáttasemjari segir góðan undirbúning auka líkurnar á að viðræður gangi vel og aðilar gangi sáttari frá borði.

Embætti ríkissáttasemjara hefur að undanförnu staðið fyrir námskeiðsröð í samningatækni. Búið er að halda námskeið á Húsavík, Ísafirði og Borgarnesi en síðasta námskeiðið verður í Stykkishólmi í nóvember. Þegar er kominn biðlisti á það námskeið.

Um 600 manns tóku þátt í samninganefndum í síðustu lotu kjarasamninga sem hófst árið 2019. Um 350 manns hafa setið námskeiðin nú, þar af sextíu manns á Egilsstöðum. Fæstir þátttakenda voru hins vegar af svæðinu.

„Við viljum fá fólk aðeins út úr sínum daglegu aðstæðum og saman í fallega náttúru til að tala um sameiginlega hagsmuni, áhyggjur og annað sem viðkemur því mikilvæga verkefni að gera kjarasamninga um leið og það kynnist aðeins betur utan samningaborðsins,“ segir Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari að loknu námskeiðinu í gær.

„Við vorum hér að ræða samningagerðina, hvernig við getum sem best undirbúið hana og það samstarf sem framundan er. Við fengum hér landslið fólks til að ræða ýmsa þætti sem snúa að kjarasamningagerðinni. Síðan voru hagnýtar æfingar, fólkið hefur verið í nánast stanslausum samningaviðræðum í þrjá daga.“

Utan dagskrárinnar voru dagarnir brotnir upp, farið var í gönguferðir á svæðinu, í Vök og verslanir auk þess sem AFL starfsgreinafélag bauð í móttöku í Randulfssjóhúsi á Eskifirði. Þeir þátttakendur sem Austurfrétt hafði tal af í gær lýstu mikilli ánægju með námskeiðið.

Bjartsýnn á gerð kjarasamninga

Framundan er ný kjarasamningslota þar sem stór hluti kjarasamninga í landinu er laus um mánaðamótin október/nóvember, þar á meðal Lífskjarasamningarnir sem skrifað var undir vorið 2019 og nær yfir 100.000 launþega í stærstu stéttarfélögum landsins við Samtök atvinnulífsins. Skeyti hafa gengið milli væntanlegra viðsemjenda síðustu mánuði og harðvítug innanhússátök í Alþýðusambandi Íslands nánast farið fram fyrir opnum tjöldum.

„Við skynjum að margir hafa áhyggjur af hvernig viðræður muni ganga en ég leyfi mér að vera bjartsýnn. Það er eðlilegur hluti samningaviðræðna að fólk leggi fram sín ólíku sjónarmið og hugmyndir. Að undanförnu hafa báðir aðilar leitast við að leggja inn í umræðuna og það á ekki að koma á óvart í aðdraganda mikilvægra viðræðna.

Ég vona að þetta sé eins og einn íbúi Grindavíkur orðaði það, að jarðskjálftarnir væru verri en eldgosið sjálft. Nú þegar eru ýmsar samninganefndir byrjaðar að setjast niður og ég vonast eftir að samtalið verði gott og hreinskiptið þótt málefnin séu erfið og væntingarnar ólíkar.“

Námskeiðið á Egilsstöðum sátu bæði fulltrúar launafólks og atvinnurekenda. „Því betur sem báðir aðilar eru undirbúnir, því betur ganga viðræðurnar. Það er engin þversögn í að um leið og gagnaðila gangi vel þá vegni þér líka vel, ef við finnum leiðir til að uppfylla eins marga hagsmuni beggja og hægt er með sem minnstum tilkostnaði fyrir hvorn.

Við látum ekki eins og átökin séu ekki til staðar heldur ræðum vinnubrögðin og skiptumst opinskátt á skoðunum um hvernig hægt sé að auka traustið og styrkja samstarfið. Ef það er samstaða um vandað ferli, vinnubrögð og samskipti þá gengur okkur betur að vinna úr málefnunum. Góð persónuleg samskipti skipta líka máli þótt hart sé tekist á,“ segir Aðalsteinn.

Mikil nýliðun í samninganefndunum

Könnun, sem embættið gerði eftir síðustu samningalotu, sýndi að samninganefndirnar fengu takmarkaðan undirbúning. Fram kom að 40% samningafólks var nýtt og 20% gátu ekki hugsað sér að taka þátt aftur. Síðan voru 60% sem fengu 10 tíma eða minna til undirbúnings. Það varð meðal annars kveikjan að námskeiðunum.

„Við viljum styðja við samninganefndir beggja vegna borðsins í þeirri sannfæringu að vinnan gangi betur. Margir upplifa viðræðurnar sem gríðarlega erfiðar enda þurfa þeir annars vegar að fást við væntingar síns baklands, hins vegar umboð og stöðu gagnaðila. Þess vegna vildum við setjast niður og ræða skipulag viðræðnanna þannig við getum hjálpað hvert öðru þannig okkur líði sem best í gegnum átökin.“

Hefð er fyrir því að bakaðar séu vöfflur í húsi ríkissáttasemjara þegar skrifað hefur verið undir kjarasamninga. Því var boðið upp á vöfflukaffi í lok námskeiðsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.