Skip to main content

„Stefnir í sömu harmsöguna og með fiskeldið“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. okt 2022 14:57Uppfært 11. okt 2022 10:18

„Ég held að það stefni, því miður, í sömu harmsöguna og með fiskeldið en ég kvitta heldur ekki upp á það að Múlaþing eigi ekki að gera neitt á meðan,“ sagði Eyþór Stefánsson, úr Austurlistanum, á síðasta sveitarstjórnarfundi Múlaþings.

Þar sköpuðust töluverðar umræður um nýlega vindorkuúttekt verkfræðistofunnar EFLU í sveitarfélaginu og hvort nýta ætti þær niðurstöður við vinnslu nýs aðalskipulags. Tillaga þess efnis var samþykkt á fundinum með níu atkvæðum meðan einn sat hjá og einn setti sig upp á mót.

Skýrslan atarna var unnin síðastliðinn vetur og þar rannsakaði verkfræðistofan hvaða svæði innan Múlaþings væru heppileg undir vindorkugarða en allnokkrir aðilar hafa þegar lýst áhuga að byggja slíka garða í landi sveitarfélagsins og þá styttist í að fyrstu tvær vindmyllur á svæðinu rísi við Lagarfossvirkjun.

Athugasemdir sem fram komu á fundinum snérust helst um íslensk stjórnvöld hafi enn ekki sett lagalegar reglur um nýtingu vindorku í landinu og þess vegna gæti verið varhugasamt að Múlaþing setti sér ákveðin markmið í því á þessu stigi. Reglur ríkisvaldsins, sem unnið hefur verið að um hríð, gætu hugsanlega kollvarpað slíkum áætlunum þegar þær koma fram.

Eyþór, sem sjálfur studdi tillöguna, tók þó skýrt fram að þó hann samþykkti að taka mið af skýrslunni í skipulagsáætlunum Múlaþing til framtíðar myndi hann að sjálfsögðu taka slaginn þegar tiltekin verkefni kæmu fram.

„Skýrslan er gott innlegg en svo skal ég taka slaginn þegar talið berst að tilteknum virkjunarkostum til nýtingar vindorku. Hér er aðeins verið að miða við þær forsendur sem eru uppi á borðum núna og ef þær breytast verður væntanlega hægt að uppfæra kortalíkön og þess háttar þegar það gerist.“

Berglind Harpa Svavarsdóttir, Sjálfstæðisflokki, staðfesti við umræðurnar að gert væri ráð fyrir svigrúmi í áætlunargerðinni ef forsendur breyttust í framtíðinni.

„Það eru vissulega ákveðnar forsendur sem er byggt út frá en það kom líka skýrt fram við kynningu að ef forsendum eða reglum er breytt þá er ekkert mál að uppfæra þessa skýrslu í því ljósi. Þannig er skýrslan gott grunnplagg og verður uppfærð eftir lögum og reglum.“

Héraðssandur er meðal þeirra svæða sem best þykja henta undir vindorkugarða samkvæmt úttekt EFLU.