Steypujárn af byggingasvæði skemmdu íbúðarhús á Seyðisfirði

Skemmdir urðu á íbúðarhúsi við Garðarsveg á Seyðisfirði vegna foks af byggingavæði á gamla knattspyrnuvellinum í óveðrinu sem gekk yfir Austurland á sunnudag. Húseigandi segir mikil læti hafa verið þegar mottur úr steypujárni lentu á húsinu.

„Þetta var eins og sprenging hefði orðið hér fyrir utan hjá okkur. Fólk í næstu húsum varð vel vart við þetta,“ segir Ásta Guðrún Birgisdóttir, sem býr að Garðarsvegi 14.

Verið er að breyta gamla íþróttavellinum í íbúabyggð og eru tvö fyrirtæki þar að störfum. Fokið kom af svæði annars þeirra. Ásta segir að svo virðist sem plast undir steypujárnsmottunum hafi tekið á sig vind sem feykti öllu af stað.

„Þetta voru minnst fimm mottur. Við óttuðumst að þetta færi inn í hús hjá okkur en sem betur fer skemmdi þetta bara klæðninguna en fór ekki í gegnum hana. Þetta eru þó talsverðar skemmdir.“

Ásta kveðst ekki hafa heyrt af því að brak af byggingasvæðinu hafi fokið á fleiri hús í nágrenninu. Hins vegar hafi fleira fokið á vellinum, varamannaskýli hafi endað í garði nokkuð utar auk þess sem stigataflan hafi kvatt.

Hún segir að eitthvert farg hafi verið sett á motturnar fyrir helgi en það ekki reynst nægjanlegt. Bætt hafi verið í eftir á. Því miður hafi fokið þó ekki komið á óvart þar sem töluverður munur sé almennt á frágangi milli verktakanna á svæðinu. Starfsmenn fyrirtækisins hafi þó verið í sambandi eftir helgina og sýnt af sér fulla kurteisi. Bæði húseigendur og fyrirtækið séu tryggð og nú sé verið að finna út með tryggingafélögum hvernig það verði bætt. „Þetta er ekki risatjón en það er ekki hentugt að þurfa að skipta um klæðningu á einum vegg.“

Ásta segir mikil læti hafa verið í veðrinu á Seyðisfirði á sunnudag og mánudag. Það sjáist í bænum en bryggjuhúsið Angró utar í firðinum féll saman. „Atvikið fyrir utan hjá okkur varð um miðjan dag á sunnudag. Þá hefur greinilega komið mikil hviða. Ég hef aldrei heyrt svona mikinn vind á ævinni.

„Það eru töluverðar skemmdir í bænum. Tré eru fokin, dálítið af brotnum gluggum hér og þar auk þess sem glersýningarrými valt um koll.“

Heilbrigðisstofnun Austurlands sendi í gær frá sér tilkynningu þar sem segir að í kjölfar óveðurs eins og í vikunni sé eðlilegt að erfiðar tilfinningar og óöryggi geri vart við sig. Þar er minnt á að sálræna aðstoð megi nálgast á heilsugæslustöðvum á opnunartíma og í hjálparsíma Rauða krossins, 1717, allan sólarhringinn.

Ásta segir lætin á sunnudag hafa minnt á hávaðann frá því skriðurnar féllu í desember 2020. Eins hafi tekið á að sjá Angró fallið. „Maður hugsar, nú er það líka farið. Það er skrýtið að stöðugt sé verið að taka í burtu það sem eiginlega alltaf hefur verið.“

Myndir: Aðsendar

sfk gardarsvegur fok sept22 asta2 web

sfk gardarsvegur fok sept22 asta1 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.