Skip to main content

Stór og flottur makríll í hús

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. ágú 2022 12:03Uppfært 25. ágú 2022 12:03

Sveiflur eru áfram í makrílveiði en fiskurinn sem fæst lítur vel út að sögn rekstrarstjóra Brims á Vopnafirði. Þar er verið að ljúka við að landa um 1000 tonnum úr Svani RE.


Skipið kom inn til löndunar í gærmorgunn og á því að ljúka seinni partinn. Auk Svans gerir Brim út Venus og Víking til uppsjávarveiða. Skipin hjálpast að við veiðarnar og skiptast á að sigla til hafnar með afla. Síðarnefndu skipin tvö eru að veiðum nú.

„Ég var að fylgjast með þeim í morgun og þau virtust vera að sigla til að leita. Þetta hefur verið svona, annað slagið kemur skot í veiðarnar og síðan þarf að leita aftur að fiskinum,“ segir Magnús Þór Róbertsson, rekstrarstjóri Brims á Vopnafirði.

Hann segir vertíðina hafa gengið ágætlega þar. „Veiðin mætti vera stöðugri en svona er makríllinn. Fiskurinn sem við höfum fengið undanfarið hefur hins vegar annars verið stór og flottur. Það að skipin hjálpist að skiptir öllu upp á að halda einhverjum stöðugleika í vinnslunni.“

Vertíðin hefur að mestu verið úti í Smugu en síðustu vikur hefur makríllinn færst nær Íslandi. Íslensku skipin hafa að undanförnu verið í kringum landhelgislínuna. Þau eru nú nokkuð fyrir norðan land, Venus og Víkingur eru heldur nær landi og sigla í átt að því meðan flest hinna skipanna eru fjær og leita áfram í norður. Nokkuð er í að næsta skip komi inn, Víkingur er kominn með um 400 tonn um borð.

Miklu munar um fjarlægðina upp á siglingartímann. Svanur var um hálfan sólarhring heim úr síðustu veiði meðan algengt er að sólarhring taki að komast heim úr Smugunni.

Hoffell kom til Fáskrúðsfjarðar í morgun með um 650 tonn. Það fer út aftur strax eftir löndun. Jón Kjartansson er væntanlegur til Eskifjarðar eftir hádegið en Börkur fór frá Norðfirði aftur á miðin í morgun. Í Neskaupstað stendur til að vígja minningarreit um þá starfsmenn Síldarvinnslunnar sem farist hafa við störf klukkan þrjú í dag.

Búið er að veiða um 100 þúsund tonn af 150 þúsund tonna makrílkvóta. Nú líður að seinni hluta vertíðarinnar upp úr mánaðamótum. Grænlensk og íslensk rannsóknaskip búa sig annars til ferðar um helgina til loðnurannsókna. Veiðiráðgjöf næsta árs byggir á þeirra niðurstöðum.