Sumarauki í kortunum?
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. ágú 2022 07:10 • Uppfært 29. ágú 2022 07:13
Hlýtt var í veðri um helgina og útlit er fyrir að svo verði áfram því suðlægar áttir virðast ríkjandi í veðurkortunum.
Hitinn yfir helgina fór mest í 17,5 gráður á Egilsstöðum um klukkan þrjú í gær. Heldur svalara var við ströndina. Á laugardag mældist 15,1 gráða á Reyðarfirði um það leyti sem fjölmennri afmælishátíð Alcoa Fjarðaáls var að ljúka.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, gerir grein fyrir veðrinu sem framundan er í færslu á vef veðurþjónustu sinnar, Bliku. Hann segir daginn í dag, 29. ágúst eða höfuðdag, gjarnan hafa verið tengdan veðurbreytingum.
Það sé ekki fjarri lagi því oft verði breyting á veðurkerfum á norðurhveli í kringum þennan dag og fer að kólna með fyrstu haustlægðunum.
Breytingarnar nú stefni hins vegar í öfuga átt og hafi farið af stað fyrir helgi. Hlýtt loft úr suðvestri sé nú að ryðja í burtu köldu háloftadragi sem hafi verið ríkjandi. Vissulega sé útlit fyrir norðanátt upp úr miðri viku en það virðist breytast um næstu helgi þegar útlit sé fyrir eina bestu daga sumarsins, sólríka með hæglætis veðri.
Samkvæmt spá Veðurstofunnar er spáð 8-16 stiga hita í dag en líklega hlýrri á morgun, um 20 gráðum. Bæði laugardag og sunnudag er síðan vænst „fremur hlýrrar suðvestanáttar.“