Orkumálinn 2024

Sýni tekið úr neysluvatni á Hallormsstað í dag

Íbúum á Hallormsstað hefur síðan síðdegis á mánudag verið ráðlagt að sjóða neysluvatn eftir að óhreinindi bárust í það vegna mikilla vatnavaxta. Unnið er að því að skola út úr kerfinu.

„Í þessum töluðu orðum er verið að taka sýni úr vatninu til að greina gerlafjölda og annað slík. Eins er unnið að því að skola út úr lagnakerfinu það grugg sem þangað barst í von um að ekki verði frekara flóð,“ segir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF veitna.

Flóð varð í Staðaránni, sem fellur í gegnum Hallormsstað, á mánudag. Við það virðast óhreinindi hafa komist inn í neysluvatnið sem varð við það kolmórautt. HEF veitur sendu á mánudag skilaboð á skráð símanúmer íbúa þar sem þeim var ráðlagt að sjóða neysluvatn. Að auki var farið með tvo stóra vatnstanka og þeim komið fyrir við annars vegar Hótel Hallormsstað, hins vegar Hallormsstaðaskóla.

Aðalsteinn segir ekki talið um aðra mengun að ræða en vatninu sem sé nothæft til alls annars en drykkjar. Vonast er eftir niðurstöðum úr sýnatökunni síðar í dag eða á morgun. Ástandið hafi verið orðið mun skárra þegar það var skoðað í gær.

Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvað gerst hafi á mánudaginn en til stendur að fara upp að vatnsbólinu til að skoða aðstæður þegar þangað verður fært. Aðalsteinn segir að til þessa hafi neysluvatn á Hallormsstað verið mjög gott þótt ekki sé óþekkt að óhreinindi berist í það í miklum vatnavöxtum. Það hafi hins vegar aldrei verið jafn mikið og nú. Því hafi heimafólk velt upp þeim möguleika hvort skriða hafi fallið ofan í árfarveginn en það er enn óstaðfest.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.