Sýning sem fagnar þeirri endurreisn og enduruppbyggingu sem hefur orðið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. okt 2022 13:27 • Uppfært 14. okt 2022 13:28
Síðsumars opnaði sýning á vegum Tækniminjasafns Austurlands, sú fyrsta eftir að húsakostur safnsins stórskemmdist í skriðuföllunum á Seyðisfirði 2020, sem fjallar um þá einstaklinga sem urðu fyrir hvað mestum áhrifum af skriðunum.
„Þetta eru nokkrar vörður um Seyðisfjörð. Með þessari sýningu erum við að fagna þeirri endurreisn og enduruppbyggingu sem hefur átt sér stað og um leið að heiðra þessa fallegu sýningu um atburðina sem Studio Ströndin gerði,“ segir Katla Rut Pétursdóttir frá Tækniminjasafninu.
Á sýningunni eru myndir og frásagnir einstaklinga sem urðu fyrir verulegum áhrifum af skriðuföllunum. Um útisýningu er að ræða þar sem miðpunkturinn er á Lónsleiru, þar sem til stendur að byggja upp nýtt svæði safnsins.
Myndirnar hvíla á stöndum sem Katla segir að séu listaverk í sjálfu sér. Um útisýningu er að ræða sem stefnt er á að verði opin allt árið.
„Þetta eru skúlptúrar frekar en skiltastandar sem málmsmiður hér í bænum smíðaði. Það er löng og rík hefð fyrir málm- og járnsmíði á Seyðisfirði, sem Tækniminjasafnið hefur mikið fjallað um og því vel við hæfi að nota þetta efni.“