Skip to main content

Takmarkanir á umferð við Hengifoss á morgun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. ágú 2022 16:05Uppfært 08. ágú 2022 16:06

Loka þarf hluta göngustígsins upp að Hengifossi á morgun um tíma vegna framkvæmda við nýja göngubrú yfir ána. Þetta er eitt þriggja verkefna á Austurlandi sem þyrla Landhelgisgæslunnar kemur að á morgun.


Með nýju brúnni verður framvegis hægt að fara hringinn meðfram ánni, að innan og utanverðu. Brú var sett niður við upphaf gönguleiðarinnar í vetur en nú er komið að brú þar sem gengið er inn í gilið.

Þyrla Landhelgisgæslunnar kemur austur í það verk. Til að gefa henni og öðrum, sem koma að verkinu, það svigrúm sem þarf til athafna um leið og öryggi gesta er tryggt, þarf að loka efri hluta göngustígsins um tíma á morgun.

Gert er ráð fyrir að þyrlan verði á svæðinu á milli 15 og 17 á morgun. Er það þó háð veðri og öðrum aðstæðum. Gæslufólk Vatnajökulsþjóðgarðs verður á staðnum til að leiðbeina gestum.

Næstu daga verður síðan unnið að frágangi brúarinnar og óska framkvæmdaaðilar eftir því að vegfarendur gefi starfsfólki gott svigrúm til sinnar vinnu.

Göngubrú yfir Selsstaðaá

Að auki er áætlað að þyrlan sinni tveimur öðrum verkefnum eystra, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Hún byrjar daginn á að fljúga inn í Herðubreiðarlindir. Þar eru gamlir vatnstankar sem ekki er hægt að sækja landleiðina. Þyrlan kemur tönkunum út á veg.

Síðan fer hún austur í Fljótsdal áður en hún endar á Seyðisfirði. Þar á að hífa göngubrú, sem félagar í Gönguklúbbi Seyðisfjarðar, hafa smíðað á sinn stað. Klúbburinn hefur undanfarið unnið að því að auka öryggi á leiðinni til Loðmundarfjarðar og er nú komið að því að brúa Selsstaðaá. Það verður gert í Kolsstaðadal í 540 metra hæð.

Landhelgisgæslan sinnir reglulega samfélagsverkefnum á borð við þessi og notar til æfinga fyrir áhöfn þyrlunnar.