Skip to main content

Tekur jákvætt í að hraða uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. ágú 2022 11:38Uppfært 09. ágú 2022 11:43

„Við getum alveg sett aðeins meiri kraft í þetta og ég býst við að það sé það sem menn eru að kalla eftir,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Þær raddir hafa magnast til muna bæði á Norður- og Austurlandi sem kalla eftir meiri fjármunum til uppbyggingar flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum í kjölfar endurtekinna eldsumbrota á Reykjanesskaga. Til að mynda hefur heimastjórn Fljótsdalshéraðs hvatt sveitarstjórn Múlaþings til að ýta á innviðaráðuneytið í því augnamiði að gera Egilsstaðaflugvöll betur í stakk búinn að sinna varaflugvallarhlutverki sínu ef á þarf að halda í framtíðinni.

Í viðtali við Spegilinn á Rás 2 tók ráðherra jákvætt í þær hugmyndir og nefndi sérstaklega að vel kæmi til greina að flýta framkvæmdum á Egilsstaðaflugvelli.

„Kannski eru menn að segja að blása í tímalínuna, það er að segja gera þetta hraðar og ég er til í það. Það er verið að vinna skipulag og hönnun á Egilsstöðum en það á ekki að vera klárt undir framkvæmdir fyrr en 2024 ef ég man rétt. Kannski er hægt að flýta því eitthvað. Það þarf nokkra milljarða til uppbyggingarinnar á Egilsstöðum. Það er flugbraut og það er verið að leggja slitlag á núverandi braut og svo hafa menn þar verið með hugmyndir um að lengja flugvöllinn til að geta tekið meiri þátt í alþjóðaflugi og kannski fraktflugi vegna fiskeldis og sjávarútvegs.“