Skip to main content

Telja hávaða frá Loðnuvinnslunni innan marka

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. júl 2022 11:58Uppfært 18. júl 2022 15:25

Heilbrigðisnefnd Austurlands telur aðgerðir Loðnuvinnslunnar til að draga úr hávaða frá kælikerfum frá starfsemi í húsnæði fyrirtækisins við Hafnargötu í hjarta Fáskrúðsfjarðar hafa skilað árangri.


Þetta eru niðurstöður tveggja mælinga sem gerðar voru í mars með viku millibili. Ráðist var í þær eftir að nágrannar gerði athugasemdir við áformaðar breytingar á húsnæði Loðnuvinnslunnar á þeim forsendum að hávaði frá kælibúnaði væri yfir viðmiðunarmörkum.

Mælt var við og í tveimur nærliggjandi hús, í fyrra skiptið með kælikerfið í gangi en í hið seinna var slökkt á því. Þetta var borið saman við eldri mælingar.

Niðurstaðan var að við húsvegg annars hússins hafði heldur dregið úr hávaða frá fyrri mælingum, annars staðar var hann svipaður. Hávaðinn reyndist í öllum tilfellum nema einu undir viðmiðunarmörkum. Það var við húsvegg annars hússins að næturlagi en skipti þá ekki máli hvort búnaðurinn var í gangi eða ekki.

Í fundargerð HAUST er vitnað til skýrslu verkfræðistofu um að hávaði virðist jafnvel meiri þegar kælibúnaðurinn er ekki í gangi því umhverfishljóð hafi mikil áhrif á hljóðvist á svæðinu. Þannig virðist vatnmagn í nálægum læk ráða miklu um hana, því nokkur hávaði sé þegar mikið er í læknum.

Niðurstaða HAUST er því að aðgerðir Loðnuvinnslunnar til að draga úr hávaða hafi skilað árangri. Í þeirri einu mælingu sem var yfir viðmiðunarmörkum var ekki hægt að rekja orsökina með óyggjandi hætti til starfseminnar. Nefndin telur þarft að endurtaka mælingarnar þegar vinnsla verður komin á fullt og minni líkur á að þættir eins og leysingavatn í nálægum leiki auki á hávaðann.