Telja kaupin á Vísi dreifa áhættu og auka arðsemi

Kaup Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á Vísi í Grindavík eru liður í stefnum félagsins um aukna arðsemi og dreifðari áhættu í rekstri. Samlegðaráhrif eru talin nýtast í sameigineigum fjárfestingum, nýtingu á búnaði og aflaheimildum.

Þetta kemur fram í kynningu sem liggur fyrir hluthafafundi Síldarvinnslunnar sem haldinn verður eftir viku. Kynningin var send Kauphöllinni í gærkvöldi.

Kaupin á Vísi, sem tilkynnt um var fyrir mánuði, eru eina málið á dagskrá fundarins. Fyrir liggur tillaga um hækkun hlutafjár upp á tæpar 146 milljónir auk þess sem núverandi eigendur falli frá forkaupsrétti.

Kaupverðið á Vísi er 20 milljarðar króna. Sex milljarðar greiðar með lausu fé og lánum en 14 milljarðar eða 70% með nýja hlutafénu. Með því eignast núverandi eigendur Vísis 8% í Síldarvinnslunni og verða fjórði stærsti eignaraðilinn í fyrirtækinu.

Samherji er áfram stærstur með 30%, Kjálkanes 16% og SÚN með 10,10%. Hlutur SÚN minnkar um 0,87 prósentustig. Næsta á eftir Vísisfjölskyldunni koma lífeyrissjóðurinn Gildi með 9,4%, Eignarhaldsfélagið Snæfugl með 3,5 og síðan Stapi lífeyrissjóður með 2,74%.

Með mesta kvótann

Með kaupunum verður til stærsta útgerðarfélag landsins miðað við aflaheimildir, tæplega 51.500 þorskígildistonn eða 12,4% af heildaraflaheimildum út frá fyrirliggjandi útreikningum á úthlutun næsta fiskveiðiárs. Síldarvinnslan hefur sex mánuði til að laga sig að 12% markinu. Í kynningunni kemur fram að sveiflur, einkum í loðnu, geti haft áhrif á hvort félagið þurfi yfir höfuð að grípa til einhverra aðgerða.

Umræðu um samþjöppun í sjávarútvegi í kjölfar kaupanna er svarað með vísan til dóms Hæstaréttar frá árinu 2012 þar sem svokallaður HHI-stuðull taldist hæfur mælikvarði fyrir virka samkeppni. Kvarðinn nær frá 1-10.000. Markaðir undir 1000 teljast almennt virkir samkeppnismarkaðir en yfir 2.000 mjög samþjappaðir. Þannig sé skor dagvörumarkaðarins hérlendis rúmlega 3.000. Sjávarútvegurinn standi hins vegar í 859 eftir kaupin, hafi verið 786 áður en Síldarvinnslan var skráð í Kauphöllina í fyrra en 761 eftir það.

Hátækni landvinnsla í Grindavík

Fyrir kaupin á Vísi á Síldarvinnslan 36.300 þorskígildistonn, þar af 18.700 í uppsjávarfiski og 17.600 í bolfiski. Vísir á 13.500 í bolfiski auk 1.700 tonna í krókaaflamarkskerfinu. Samanlagðar bolfiskheimildir eru 31.100 tonn, sem er aukning upp á 76%. Í kynningunni segir að það breikki undirstöður og skapi tækifæri til aukinnar hagræðingar og nýtingar aflaheimilda og vinnslu.

Síldarvinnslan hefur undanfarin ár gert út fjögur bolfiskveiðiskip. Blæng frá Neskaupstað, Gullver frá Seyðisfirði auk Bergs og Vestmannaeyjar en síðastnefndu skipin eru gerð út af dótturfélaginu Berg-Huginn í Vestmannaeyjum. Þau veiddu á síðasta ári 22 þúsund tonn sem skilaði aflaverðmæti upp á 5,1 milljarð. Um bolfiskvinnsluna segir að hluti fisksins hafi verið unninn á Seyðisfirði og um borð í Blængi. Um vinnsluna á Seyðisfirði segir enn fremur að hún afkasti 70 tonnum á viku og takmörkuð fjárfesting hafi átt sér stað í henni.

Vísir hefur hins vegar gert út sex skip alls sem mest hafa veitt bolfisk. Um er að ræða togarann Jóhönnu Gísladóttur, línubátana Fjölni, Sighvat og Pál Jónsson auk smábátanna Daðeyjar og Sævíkur. Þau veiddu alls 19.700 tonn og skiluðu 5 milljörðum í aflaverðmæti.

Landvinnsla Vísis er í þremur húsum í Grindavík. Í fyrsta lagi hátækni frystihúsi sem framleiðir ferskan og frosinn bitafisk og afkastar 500 tonnum á viku. Í gegnum það fóru 9.900 tonn af fiski í fyrra. Síðan er þar hátækni salthús sem vinnur flök. Það getur afkastað 400 tonnum á viku og vann 7.600 tonn í fyrra. Fram kemur í kynningunni að verið sé að skoða frekari tæknivæðingu þess. Að endingu er Vísir með þjónustuhús þar sem 2.800 tonn voru slægð í fyrra.

Tækifæri með kaupunum eru meðal annars talin felast í aukinni nýtingu á hátækni vinnslu í Grindavík, samnýtingu og sameiginlegri endurnýjun skipaflota, samlegð í sölu- og markaðsmálum en Vísir á framleiðslu- og sölufélög í Þýskalandi, Spáni og Grikklandi, samnýtingu stoðdeilda svo sem yfirstjórnar, skrifstofu, gæða- öryggismála, aukinni framlegðar í krafti stærðarhagkvæmni og hagstæðari fjármögnun.

Stærra félag

Tekjur félaganna í fyrra voru samtals 319 milljónir Bandaríkjadala, þar af 237 hjá Síldarvinnslunni. Stöðugildi hjá Síldarvinnslunni voru 365 fyrir kaupin en verða 618 eftir það. Hagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði var samanlagt um 100 milljónir dollara í fyrra, þar af 84,6 hjá Síldarvinnslunni. Rekstri Vísis síðustu þrjú ár er lýst sem stöðugum.

Síldarvinnslan hefur vaxið hratt að undanförnu því í byrjun júní var gengið frá kaupum félagsins á Arctic Fish sem rekur fiskeldi á Vestfjörðum. Með þeim og kaupunum á Vísi eru eignir Síldarvinnslunnar metnað á rúman milljarð dollara.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.