Skip to main content

Telja kominn tíma að fara heildstætt yfir heilbrigðisþjónustu í Múlaþingi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. júl 2022 10:27Uppfært 28. júl 2022 10:27

Fulltrúar í sveitarstjórn Múlaþings hafa óskaði eftir fundi með stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Austurlands til að fara yfir heilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu. Sérstakar áhyggjur eru af skorti á læknum á Seyðisfirði yfir sumarið.


Seyðfirðingar fengu í voru tilkynningu um að enginn læknir yrði í bænum um kvöld og helgar frá byrjun júní fram í miðjan september. Vakt á þessum tímum er í staðinn sinnt frá Egilsstöðum. Í kjölfarið sendi heimastjórn frá sér ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum af þessari þjónustuskerðingu.

Svona hefur staðan verið undanfarin ár í bæjarfélaginu enda skortur á læknum víða á landsbyggðinni. Íbúar og kjörnir fulltrúar telja þetta illa ganga upp miðað við þann mikla fjölda sem komi til Seyðisfjarðar, meðal annars á LungA og með skemmtiferðaskipum.

„Þetta þýðir að enginn læknir er í marga mánuði á þeim tíma sem bærinn er stútfullur af fólki. Þetta er mikil þjónustuskerðing sem ógnað getur lífi og limum fólks,“ sagði Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans á síðasta fundi sveitarstjórnar.

Björg Eyþórsdóttir, formaður heimastjórnar, sagði að þótt upphaflega ástæðan fyrir sameiningu vaktsvæðanna hefði verið læknaskortur hlyti með tímanum að vera rétt að endurskoða stöðuna. Íbúar upplifi óöryggi og þær áhyggjur séu réttmætar.

Af þessum sökum hefur sveitarstjórn óskað eftir fulltrúum HSA til fundar. Í bókun segir að óskað sé eftir fundinum til að koma áhyggjum Seyðfirðinga á framfæri en einnig til að ræða ýmis fleiri mál varðandi HSA á svæðinu. Á fundinum var snert á nokkrum þeirra málefna.

Til að mynda benti Björg á að þótt Borgfirðingar hefðu fengið hjúkrunarfræðing þá væri enginn á staðnum þegar sá starfsmaður færi í sumarfrí heldur þjónustan á Egilsstöðum. Á Djúpavogi væri hins vegar læknir á vakt flest kvöld og helgar, þar hefði verið lögð meiri áhersla á að tryggja þjónustu vegna fjarlægðar til næstu byggðar.

Þarf að huga að plássi til að byggja upp til framtíðar

Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður byggðaráðs, sagði fulla ástæðu til að ræða almennt við HSA hvernig hægt væri að fjölga læknum á Austurlandi. Til dæmis þyrfti að skoða að tryggja þeim húsnæði eins og gert var með læknabústöðum áður.

Einnig þyrfti að skoða starfsumhverfið. „Það er brjáluð vinna ef vaktlæknir á Egilsstöðum á líka að sinna Seyðisfirði og öllum þeim ferðamönnum sem eru hér á svæðinu. Það er nánast ómannúðlegt fyrir einn lækni á vakt að sinna öllu þessu,“ sagði hún.

Berglind benti einnig að á Egilsstöðum þyrfti að huga að framtíðarskipulagi fyrir heilsugæsluna. „Ég hef lengi barist fyrir bættum tækjakosti á heilsugæslunni. Ég hef fengið þau mótrök að það sé ekki rými fyrir hann. Það er hægt að leysa en það þarf að huga að því hvar framtíðarhúsnæði heilsugæslunnar verður.“

Ásókn hefur verið í svæðið milli núverandi heilsugæslustöðvar og þjóðvegarins, verið rætt um að byggja þar íbúðir fyrir aldraða, íþróttasvæði og heilbrigðisþjónustuna. „Margir hafa áhyggjur af því að ganga eigi á svæði sem skilgreint er fyrir heilbrigðisþjónustu. Við þurfum að horfa á hvar eigi að vera öflug heilsugæsla með góðum tækjakosti og aðstöðu. Hún þarf ekki endilega að vera í miðbænum en það er kominn tími á þetta samtal.“