Telur fjarskiptakerfið hafa staðist áraunina
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. okt 2022 10:01 • Uppfært 07. okt 2022 10:04
Framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar telur þá eflingu sem gerð hefur verið á fjarskiptakerfum landsins síðan í aðventustorminum 2019 hafa sannað gildi sitt fyrir tveimur vikum þegar hálft landið varð skyndilega rafmagnslaust.
„Eftir þau atvik sem þá urðu var gert átak í að byggja upp varafl og því reyndar komið upp víðar en gert var ráð fyrir í fyrstu. Það kerfi sem síðar hefur verið byggt upp stóðst væntingar okkar,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.
Röð atvika varð til þess að í hádeginu sunnudaginn 25. september varð rafmagnslaust á svæðinu frá Blöndu í norðri austur að Höfn í Hornafirði. Þórhallur segir að Neyðarlínan hafi ekki upplýsingar að fjarskipti hafi fallið út að ráði vegna þess nema á Borgarfirði eystra auk þess sem langbylgjusendingar RÚV duttu út stutta stund. Engin truflun varð á Tetra-kerfinu, sem viðbragðsaðilar nota til samskipta sín á milli.
„Við erum nokkuð ánægð með hvernig til tókst. Það var miklu minna um útföll en vænta mátti vegna rafmagnsleysisins,“ segir Þórhallur.
„Þótt Neyðarlínan beri enga formlega ábyrgð á öðrum fjarskiptakerfum, svo sem GSM-kerfinu, hefur hún þó lagt til fjármagn til að styrkja dreifikerfið. „Við viljum að fólk geti hringt í okkur í neyð,“ útskýrir Þórhallur.
Vikuna á eftir voru síðan miklar truflanir á rafmagni í sveitunum í kringum Djúpavog og lentu að minnsta kosti íbúar í Berufirði í vandræðum með símasamband vegna þessa. Þórhallur segir þekkt að GSM-samband sé ekki nógu gott á því svæði. Leiðir til úrbóta þar á hafi verið skoðaðar.
Almennt sé staðan þó orðin nokkuð góð á Austurlandi sem um land allt og mikið hafi áunnist á undanförnum árum. Efling fjarskipta sé hins vegar verkefni sem ljúki seint og sé Neyðarlínan því í samtali við bæði Fjarskiptastofu og símafélögin um áframhald.
