Skip to main content

Þaraplast bar af í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. okt 2022 09:21Uppfært 03. okt 2022 09:31

Verkefnið Þaraplast fékk verðlaun sem besta verkefnið í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna í Fjarðabyggð um helgina en það var sjálfur forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson sem verðlaunin veitti á Tæknidegi fjölskyldunnar í Verkmenntaskóla Austurlands.

Verðlaunaafhending vegna Nýsköpunarkeppninnar var einn stærsti atburðurinn á Tæknideginum þar sem tilgangurinn er að kynna bæði starf skólans fyrir utanaðkomandi og ekki síður gera tækni og vísindum hátt undir höfði.

Nýsköpunarkeppnin er haldin í samstarfi við Verkmenntaskólann og Matís en þátt taka nemendur á unglingastigi í grunnskólum sveitarfélagsins. Að þessu sinni áttu nemendurnir að vinna hugmyndir að nýtingun þangs og þara úr nágrenninu og höfðu til þess sex vikur í nánu samráði við kennara sína.

Verkefnið Þaraplast þótti bera af eftir langa yfirlegu dómnefndar en þeir Júlíus Sigurðarson og Svanur Hafþórsson úr Nesskóla unnu það verkefni. Mikil nýsköpun væri í því verkefni að mati dómnefndar og höfundar hefðu flotta framtíðarsýn um hvernig verkefnið gæti breytt heiminum.

Í öðru sæti varð verkefnið Fjörusalt eftir þau Þór Theódórsson og Stefaníu Guðrúnu Birgisdóttur, einnig úr Nesskóla,en um hana sagði dómnefnd að hugmyndin væri metnaðarfull um nýtingu fjalls og fjöru og spennandi væri að sjá hana koma á markað.

Anna Ragnarsdóttir, Ólafía Danuta Bergsdóttir og Kolka Dögg Ómarsdóttur úr Eskifjarðarskóla hlutu þriðju verðlaun fyrir verkefnið Þaramálning sem dómnefnd sagði afar frumlega og mikil nýsköpun í þeirri hugmynd.

Sigurvegarnir í Nýsköpunarkeppninni með forseta Íslands. Fjöldi fólks lagði leið sína á þennan áttunda Tæknidag fjölskyldunnar á laugardaginn var. Mynd Kristín Hávarðsdóttir