Skip to main content

Þarf norður á fæðingardeild en fær ekki gistingu á sjúkrahóteli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. júl 2022 10:52Uppfært 28. júl 2022 11:29

„,Fæðingardeildin í Neskaupstað er aldrei lokuð en það koma dagar og dagar og helst að sumarlagi þar sem við náum ekki að manna deildina eins og nauðsyn krefur,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA.)


Rannveig Lóa Haraldsdóttir frá Egilsstöðum, sem er að eignast sitt fyrsta barn, þarf til Akureyrar til að fæða en lenti á vegg þegar kom að því að verða sér úti um gistingu á Hótel Akureyri sem er skráð sem sérstakt sjúkrahótel samkvæmt Sjúkratryggingum Íslands.

„Nú þarf ég á Akureyri að bíða eftir að fæða barnið mitt. Þetta er mitt fyrsta barn og ómögulegt að segja nákvæmlega hvenær hann ákveður að frumsýna sig. Þar að leiðandi mælir ljósmóðir með að ég fari eitthvað fyrir settan dag norður og bóki mér gistingu í gegnum sjúkrahótelið sem er þar.“

Fékk hún þau svör hjá hótelstarfsmönnum við eftirgrennslan að umrætt hótel væri ekki „sjúkrahótel“ og hún gæti ekki ætlast til þess að fá gistingu sísona á háannatíma ferðamanna. Gat hótelið boðið konunni eina einustu nótt en ekki lengri gistingu en það. „Ég er svo reið og sár yfir þessari framkomu og hneyksluð á því að ekki séu til nein úrræði. Þetta hótel sem sérstaklega auglýsir sig sem sjúkrahótel er svo peningagráðugt. Ég á ekki til orð! Ég veit að það er mjög óhentugt fyrir gististaði að þurfa hýsa gesti í viku eða tvær samfleytt, en ég er ekki í neinu líkamlegu ástandi til að geta staðið í því að flakka á milli gististaða milli daga í allt að 3 vikur ef ég geng framyfir settan dag,“ skrifar hún í Facebook-færslu sem farið hefur víða.

Forstjóri HSA segist ekki þekkja umrætt mál en segir að almennt séu tvær ástæður fyrir að fólk sé sent annað í tilfellum. „Það er annars vegar ef þörf er metin svo að viðkomandi þurfi meiri þjónustu en við getum boðið upp á hér austanlands en hins vegar koma stöku dagar þar sem við einfaldlega náum ekki að manna fæðingardeildina. Hún er aldrei eiginlega lokuð en á deildinni þurfa að vera fæðingarlæknir, skurðlæknir og ljósmóðir til taks og það kemur fyrir stöku sinnum að það næst ekki að manna þær stöður.“

Hann bendir hins vegar á að HSA bæði leiðbeini því fólki sem þarf annað og aðstoði að sjálfsögðu við slíkt ef óskað er eftir.