Skip to main content

Þarf stundum líka að spá í eiganda myndarinnar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. okt 2022 12:47Uppfært 14. okt 2022 12:47

Innrömmunarþjónustan Rammalausnir Sigrúnar opnaði í Fellabæ í fyrra. Eigandinn segir að ýmsu að hyggja þegar rammar eru valdir utan um myndir eða aðra dýrgripi.


„Stundum þarf maður að spá ekki bara í myndina heldur líka hvernig eigandinn er eða hvar hún á að koma,“ segir Sigrún Steindórsdóttir, húsgangameistari sem Rammalausnir Sigrúnar eru kenndar við í þættinum Að austan á N4.

„Það eru klárlega tískufyrirbrigði í römmunum. Það er alltaf hvítt og svart en síðan kemur eitthvað annað á milli, sem betur fer. Það þarf að horfa í myndina, hvað passar við hana eða umhverfið, hvort hún sé til dæmis í gömlu húsi.“

Sigrún segist lengi hafa haft innrömmunarþjónustu í huga þar til slík þjónusta í Kópavogi var auglýst til sölu. Hún hafi fyrst talið of dýrt að kaupa hana en síðar komist að því að verðið væri viðráðanlegt og látið til leiðast. „Það var allt sett í gám og flutt austur. Síðan var það geymt þar næstu tvö árin þar til húsnæði fannst.“

Þá útskýrir hún að handverkið hafi alltaf sérstöðu í samkeppi við hið staðlaða, ódýrara form. „Það er alltaf fullt af verkum sem eru óhefðbundin og passa ekki í venjulega ramma, allt frá íþróttabúningum yfir í útsaum eða póstkort.“