Þegar lögreglustöðin fauk á haf út

Óveðrið sem gekk yfir Austfirði á sunnudag og mánudag minnir helst á veður sem gerði þar 1. desember árið 1980, segir veðurfræðingur sem reynir að meta endurkomulíkur slíks veðurofsa. Lögreglustöðin á Seyðisfirði fauk á haf út í því fárviðri.

Árekstur hlýs og kalds lofts fyrir austan Grænland, snögg kólnun og kalt loft sem steypist fram af fjöllum var hráefnið sem blandaðist saman í fárviðri sem gekk yfir Austurland í byrjun vikunnar, að sögn Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings hjá Veðurvaktinni og Bliki, í Austurglugganum í vikunni.

Þar ræðir Einar meðal annars hvernig kalda loftið fór suður yfir jöklana og steyptist síðan fram af fjallsbrúnum, mótað í skrúfur af landslaginu sem síðan framkölluðu mikla vindstrengi sem ollu miklu tjóni.

Einar segir veður eins og þetta ekki óþekkt en áratugir líði yfirleitt á milli þeirra. „Það eru nokkur þekkt norðvestan veður, til dæmis 8. janúar 2021. Það veður sem einna líkast er þessu nú var 1. desember 1980. Þá fauk lögreglustöðin á Seyðisfirði á haf út þannig kamarinn einn sat eftir. Aðdragandinn nú er svipaður. Mér þykir líklegt að endurkomutími á veðri sem þessu skipti áratugum.“

Sá lögreglustöðina splundrast í loftinu

Í frásögnum dagblaðanna í kjölfar óveðursins 1980 er frásögnin af lögreglustöðinni nokkuð fyrirferðamikil. „Lögreglustöðin fauk á haf út“ segir Morgunblaðið, Dagblaðið bætir um og býður upp á: „Lögreglustöðin fauk í heilu lagi á haf út“ og Tíminn skrifar: „Lögreglustöðin tókst á loft og fauk út á sjó.“

„Ég var rétt rétt kominn upp á kaffistofuna hjá Verksmiðjunni Stál, þegar mér virtist ég sjá eitthvað ókennilegt hendast upp í loftið og beint fyrir framan gluggann en lögreglustöðin er einmitt beint á móti. Þegar ég athugaði betur sá ég að heilt hús hafði kastast upp sem síðan splundraðist í loftinu.

Ég áttaði mig ekki á hvaða hús þetta var og taldi þetta vera hálfbyggt hús sem stóð aðeins innar. Þegar ég hafði fullvissað mig um að svo var ekki tók ég eftir því að lögreglustöðin var horfin, en aðeins stóð vatnsstrókur upp í loftið, þar sem vatnsleiðslur og rafmagnsleiðslur höfðu rifnað í sundur,“ segir Friðrik Aðalbergsson í samtali við Vísi. Lögreglumaðurinn Sævar Helgason þakkar þar fyrir að hafa ekki verið kominn í hús.

Shell-skálinn ónýtur

Dagblaðið hefur eftir Bjarna Magnússyni lögreglumanni að 50 kg lóð sem geymt hafi verið í lögreglustöðinni hafi hvergi fundist. Þá séu 6-8 rúður brotnar í öðru hverju húsi. Pylsuvagn við íþróttasvæðið fauk tugi metra.

Lögreglustöðin var þá í bráðabirgðahúsi á hafnarbakkanum. Þar skammt frá var bensínskáli Shell sem slapp litlu betur. Þakið fauk af honum í heilu lagi og hliðar skálans rifnuðu út. Ingimar Hjálmarsson, fréttaritari Tímans, lýsir því að hann hafi horft upp á frambyggðan Rússajeppa fjúka á toppinn þegar hann hafi verið að snúa við af götu. Við má bæta að Friðrik Indriðason, sem síðar vann á Austurfrétt/Austurglugganum, tekur saman tíðindin frá fréttariturum Tímans um landið.

Þakið fauk upp í fjall

Fréttaritari Morgunblaðsins segir frá því að allmargar trillur hafi sokkið eða fokið til, minnst eitt íbúðarhús hafi stórskemmst og fólk marist eða hruflast þegar það hætti sér milli húsa. Annars staðar er ekki greint frá slysum á fólki þótt fréttaritari Vísis í Neskaupstað hafi fokið til.

„Þegar ég kom fyrir hornið á félagsheimilinu, kemur þessi ofsalega hviða og tekur mig á loft og ég lendi upp á barði, sem er tveir metrar á hæð. Ég kom hvergi við, flaug bara í lausi lofti,“ segir Friðjón Þorleifsson.

Þar fauk hálft þakið af fjölbýlishúsi ofar lega í bænum „yfir íbúðarhús í byggingu og hentist upp í fjallshlíðina,“ samkvæmt lýsingu Morgunblaðsins. Þar segir einnig frá því að gamall nótabátur hafi tekist á loft, fokið út á sjó þar sem hann brotnaði og eyðilagðist er hann barst í land á ný. Þar varð einnig frekara foktjón og bærinn illa útlítandi eftir sjógang.

Bátar sökkva á Reyðarfirði

Skemmdir urðu víða á Austfjörðum í þessu ofsaveðri. Á Reyðarfirði sukku tveir minni bátar, reykháfur síldarverksmiðjunnar fauk og brotnaði, íbúðarhús í byggingu stórskemmdist auk annars foktjóns á bílum, þökum húsa og gluggum.

Á Eskifirði fuku allmargar þakplötur af frystihúsinu auk þess sem gömul fiskskemma liðaðist í sundur. Á Djúpavogi fýkur meirihlutinn af þaki gamla frystihússins, bílar skemmast, rúður brotna og þakplötur fjúka af húsum. Á Borgarfirði fauk nýr fólksbíll á hliðina og ónýttist.

Á Vopnafirði er vindhraðinn sagður hafa mælst 17 vindstig á flugvellinum. Það er allvel í lagt því Beaufort-kvarðinn nær aðeins upp í 12. Miðað við það væri vindhraði kominn upp í 75 m/s sem er fellibylsstyrkur. Þar skemmdust þök á tveimur íbúðarhúsum í bænum og fjárhúsum í sveitinni.

Rafmagns- og símaleysi

Fregnirnar berast ekki allar samdægurs, víða er símasamband ótraust. Fimm staurastæður í Austurlínu eru brotnar skammt frá Jökulsá á Fjöllum en línan fór ekki í sundur þótt víða séu keyrðar dísilstöðvar. Austri segir litlu hafa mátt muna að skammta þyrfti rafmagn sem fór af á nokkrum stöðum. Óveðrið varð á mánudegi en fyrstu myndir að austan birtast ekki í blöðunum fyrr en á miðvikudegi. Stærsti munurinn milli stormanna 1980 og 2022 virðist vera að stormurinn 1980 stóð aðeins í 2-3 tíma meðan nú entist það í heilan dag, jafnvel lengur.

Óveðrið fer aldrei hátt í dagblöðunum enda nóg að gerast í þjóðmálunum. Mótmælendur koma sér fyrir í dómsmálaráðuneytinu til að hindra brottvísun franska flóttamannsins Gervasonis sem skemur ríkisstjórnina. Átök eru á þingi Alþýðusambandsins og í lok vikunnar lýsir Hjörleifur Guttormsson, þá iðnaðarráðherra því yfir, að besta lausnin í virkjanamálum væri að loka álverinu í Straumsvík.

Mynd Dagblaðsins af Seyðisfirði eftir storminn. Aðalmyndin er af Shell-skálanum, uppi vinstra megin er pylsuvagninn en til hægri það sem eftir var af lögreglustöðinni. Skjáskot af Timarit.is

Lengri útgáfa af viðtalinu við Einar birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.