Skip to main content

Þétt og mikil dagskrá á Vopnaskaki þetta árið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. júl 2022 12:14Uppfært 04. júl 2022 14:39

„Hátíðin er hafin, fullt af forvitnilegum viðburðum daglega á næstunni og við erum búin að panta góða veðrið,“ segir Þórhildur Sigurðardóttir, verkefnastjóri í Vopnafjarðarhreppi.

Hin góðkunna árlega hátíð Vopnaskak hófst í dag og sem endranær verður ýmislegt móðins í boði fyrir gesti og gangandi fram á laugardaginn kemur.

„Allir viðburðirnir þennan fyrsta dag eru innandyra ef frá er talin jeppaferð björgunarsveitarmanna í kvöld,“ segir Þórhildur. „Það er af ýmsu að taka og eitthvað fyrir alla aldurshópa í bænum og auðvitað allt frítt. Í dag er til dæmis hörkukeppni eldri borgara og meistaraflokks Einherja í boccia í félagsheimilinu Miklagarði.“

Dagskrána má sjá í heild sinni hér en alla dagana gefst unglingum kostur á að sækja sérstakar vinnustofur Berglaugar Petru þar sem leitast verður við að gefa gömlum hlutum nýtt líf með ýmsum hætti. Yngri börnin geta sótt dansnámskeið í danskólanum Valkyrju, sundpartí í Selárlaug og ekki má gleyma hinu eina sanna hagyrðingakvöldi sem landsfrægt er. Er þá fátt eitt nefnt.

Engum ætti að leiðast á Vopnafirði þessa vikuna enda fjöldi viðburða í boði alla daga fram á næstu helgi á Vopnaskaki.