„Þetta var ágætt áður en þeir fóru að fikta í þessu“

Ólafur A. Hallgrímsson, smábátasjómaður á Borgarfirði, vonast til að matvælaráðherra hlusti á gagnrýni austfirskra smábátasjómanna á fyrirkomulag strandveiða. Hann segir ójafnt gefið í núverandi kerfi og það bitni á byggðum á borð við Borgarfjörð.

„Þetta var ágætt eins og þetta var áður en þeir fóru að fikta í þessu. Á meðan við fengum úthlutað kvóta á hvert svæði, svona kringum tvö þúsund tonn hingað á Austursvæðið sem ætlað var strandveiðibátunum hér á svæðinu.

Þegar kvótinn var rúm tvö þúsund tonn þá dugði það magn til að við næðum að veiða þessa 48 daga sem okkur er heimilt að fara út. Þetta dugði fínt fyrir okkur og við gátum því veitt fiskinn þegar hann var orðinn stór og fínn og fengið gott verð fyrir.

Það hefur ekki verið raunin eftir breytingarnar því við erum búnir með allan kvóta strax í júlí eða töluvert áður en feitur fiskur fer að sjást hér fyrir austan landið,“ segir Ólafur í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Útgerðir fara af svæðinu

Sem kunnugt er voru strandveiðar stöðvaðar í sumar upp úr miðjum júlí þegar kvóti ársins kláraðist. Var það áður en besti fiskurinn gengur upp að Austfjörðum. Slíkt segir Ólafur afar slæmt fyrir byggðarlög á borð við Borgarfjörð þar sem margfeldis áhrif þar.

„Allur fiskurinn fer hér í vinnslu og þetta fín uppgrip fyrir menntaskólakrakkana sem þurfa að ná sér í sumarpeninga meðan venjulegt starfsfólk er í sumarfríi. Nú hefur þetta fólk enga vinnu lengur því kvótinn er uppurinn og varð það strax í júlímánuði þegar sumarið er rétt hálfnað eða svo. Áður gat fólk verið með góða vinnu alveg fram í september.

Ég veit til þess að útgerðir hér austanlands hafa hætt eða flutt sig annað vegna þessarar stöðu og bátum almennt hér hefur fækkað nokkuð.“

Breytingar voru gerðar á kerfinu árið 2019 þar sem svæðaskipting kvóta var afnumin. Ólafur segist bjartsýnn á að matvælaráðherra geri bót á. „Ég bind miklar vonir við að sitjandi sjávarútvegsráðherra geri á þessu þær breytingar sem til þarf, því kerfið eins og það hefur verið undanfarin ár er slæmt fyrir alla sem að koma.

Mér finnst allavega ljóst að þeir eiga afar sterka stjórnmálamenn á Vesturlandi. Ég ætla nú ekki að segja að þeim sé alveg sama um okkur hér fyrir austan en þeir virðast hafa haft trú á að allir næðu að veiða í 48 daga sem er ansi skringileg sýn á hlutina og reynslan sýnt að var kolrangt mat.“

Aldrei veitt fisk áður en hann flutti austur

Ólafur, sem var um tíma formaður smábátaeigenda á Austurlandi er að mestu leyti sestur í helgan stein þótt hann geri enn Eydísi NS út á strandveiðar. Hann er uppalinn fyrir vestan en kona hans, Sigrún Halldóra Arngrímsdóttir, er frá Borgarfirði og segir Ólafur að hún hafi hvergi annars staðar viljað vera. „Það hentaði mér mjög vel á þeim tíma og hér kunni ég strax vel við mig. Það munu vera nákvæmlega 40 ár síðan að ég flutti austur. Allt hér á þessum stað átti bara við mig frá fyrstu stund og hér er ég enn.“

Ólafur segir að heppnin hafi fylgt honum austur því hann var fljótt kominn í störf á smábátum og kunni því svo vel að við það hefur hann dundað allan sinn feril. „Ég hafði aldrei veitt fisk áður en hingað kom. Ég hafði aðeins gutlað í bátum heima fyrir vestan en ekkert verið á sjó neitt að ráði fyrr en hér á Borgarfirði. Vorum á handfæraveiðum hér og þetta líkaði mér afar vel og fannst skemmtilegt. Það lá fljótlega fyrir að fátt annað væri í stöðunni en fá sér eigin bát og hefja veiðar.“

Hann segir þó stóran mun á því að kaupa bát á sínum tíma og núna. Kröfur um hitt og þetta hafi margfaldast á þessum árum. „Þegar ég kaupi minn fyrsta bát þurfti eiginlega aðeins að tryggja bátinn og mig sjálfan og eiga einhverja aura fyrir olíu og þá var það að mestu upptalið. Ég reyndar var svo óheppinn að árið sem ég kaupi fyrsta bátinn er sama árið og fyrstu skerðingarnar tóku gildi í strandveiðunum. Þá minnir mig að óheimilt hafi verið að fiska á sunnudögum.

Síðan hefur þetta auðvitað versnað til mikilla muna og skrifræðið sem fylgir því að kaupa bát í dag og gera hann út er næstum ekki þess virði. Sem er mikil synd því þetta er þrátt fyrir allt saman afar mikilvæg útgerð.“

Lengri útgáfa viðtalsins birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.