Þjóðkirkjan tekur þátt í ræktun birkiskóga
Þjóðkirkjan hefur bæst í hóp þeirra sem taka höndum saman varðandi endurheimt skóglendis á Íslandi. Hreinn Óskarsson, fulltrúi Skógræktarinnar, afhenti biskupi Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, fjölda birkifræja til sáningar fyrr í mánuðinum.
Þetta kemur fram á vefsíðu Skógræktarinnar. Athöfnin fór fram í barnamessu í Bústaðakirkju. Birkifræin koma úr landssöfnun Skógræktarinnar.
„Þeim verður dreift til allra skírnarbarna næstu árin með kveðju frá Skírnarskóginum. Á hverju ári eru nokkur þúsund barna borin til skírnar og má því gera ráð fyrir að Skírnarskógurinn vaxi og dafni með sáningu fjölda birkifræja um allt land,“ segir á vefsíðunni.
„Barnamessan í Bústaðakirkju hófst á líflegum píanóleik organistans Jónasar Þóris Þórissonar á meðan fólk á öllum aldri tíndist inn í kirkjuna....
Þegar líða tók á stundina drógu umsjónarkonur barnamessunnar fram brúna trékistu. Börnin komu upp að altarinu til þess að sjá hvaða fjársjóð kistan hafði að geyma. Ofan í henni mátti sjá ótalmörg birkifræ.“ segir á vefsíðunni.
Þau Agnes og Hreinn lýstu því í einföldu máli hversu mikilvægt það er að planta trjám og endurheimta skóglendi á Íslandi. Þau sögðu börnunum einnig hversu duglegt eitt tré væri þegar kemur að því að kolefnisjafna heila mannsævi. Barnið stækkar um leið og birkitréð vex og dafnar. Agnes lýsti því hvernig tréð getur orðið risastórt, miklu stærra en barnið sem sáði því. Hreinn benti börnunum á það að trén sem vaxa í kringum kirkjuna hafi eitt sinn verið pínulítil fræ.
„Hvert barn sem skírt er, fær afhent fallegt kort frá Skírnarskóginum en hvert kort inniheldur u.þ.b. þúsund birkifræ,“ segir Agnes.
„Við höfum í hyggju að eiga í nánara samstarfi við Skógræktina í framtíðinni,“ bætti hún við. „Við hyggjumst setja af stað verkefni næsta haust þar sem við fáum fermingarbörn um allt land til þess að safna birkifræjum. Þannig getum við skilað Skógræktinni aftur þeim fræjum sem við fengum frá þeim.“
Mynd: Agnes M. Sigurðardóttir biskup og Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóganna hjá Skógræktinni. Mynd: Elín Elísabet Jóhannsdóttir