Þrýsta á hraðari uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. sep 2022 13:17 • Uppfært 13. sep 2022 13:19
Fulltrúar í sveitarstjórn Múlaþings hafa óskað eftir því að innviðaráðherra komi til fundar um málefni flugvallarins á Egilsstöðum. Þeir telja brýnt að ráðast í þær framkvæmdir sem til þarf þannig að völlurinn geti gegnt hlutverki sínu sem varaflugvöllur fyrir Keflavík. Það sé enn þarfara í ljósi eldsumbrota á Reykjanesi.
Rætt var um stöðu flugvallarins á síðasta fundi sveitarstjórnar, meðal annars í kjölfar viðvarana jarðeðlisfræðinga um að tryggja þurfi flug inn í landið ef Keflavíkurflugvöllur annað hvort lokist sjálfur eða ófært verði að honum vegna eldgosa.
Samkvæmt flugstefnu Íslands, sem Alþingi samþykkti árið 2020, er uppbygging á Egilsstöðum í forgangi til að tryggja öryggi í íslensku flugi. Fram kom í umræðum á fundinum að hönnum vallarins sé klár sem og deiliskipulag en fjármagn vanti til framkvæmda. Eitthvert fjármagn virðist til framkvæmda árið 2024 en fulltrúarnir vildu reyna að flýta verkinu þannig hægt sé að byrja strax á næsta ári.
Þrýstingur á að völlurinn verði byggður upp sem varaflugvöllur er ekki nýr af nálinni. Við umræðurnar vitnaði Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, til orða Ingvars Tryggvasonar, fyrrum formanns öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, sem rifjaði nýverið upp að alvarlegt ástand hefði skapast árið 2018 þegar Keflavíkurvöllur lokaðist skyndilega vegna veðurs og beina þurfti umferð þaðan annað. Þar hafi hurð skollið nærri hælum þegar eldsneyti minnkaði á vélum þegar þær þurftu að bíða eftir öruggri lendingu.
Kostnaðar- og umhverfismál
Nokkrir fulltrúar bentu á að náttúrulegar aðstæður gerðu Egilsstaðaflugvöll að besta kostinum sem varavöll. „Á Akureyri er lítið landrými og erfitt að byggja í nema eina flugstefnu,“ sagði Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans.
Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti Vinstri grænna, vitnaði til orða stjórnenda Icelandair á fundi með sveitarstjórninni fyrr í sumar um að flestar flugvélar sem flygju til Keflavíkur miðuðu við Lerwick-flugvöll á Hjaltlandseyjum sem varaflugvöll því íslensku vellirnir stæðust ekki kröfur. Þess vegna hæfu þær sig til lofts með meira eldsneyti um borð en þyrfti til að fljúga til Egilsstaða. Krafan um varaflugvöll væri því bæði kostnaðar- og umhverfismál.
Auknir nýtingarmöguleikar
Pétur Heimisson, frá VG, sagði uppbyggingu flugvallarins skipta máli fyrir aðgang að hátækniheilbrigðisþjónustu. Efling vallarins skapaði einnig grundvöll fyrir að staðsetja þar björgunarþyrlu. „Hún er þarft og brýnt mál fyrir þennan landshluta.“
Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokks, lýsti furðu sinni á umræðunni sem hefði farið af stað um mögulega varaflugvelli í kjölfar eldsumbrotanna á Reykjanesi þar sem hugmyndir um slíka velli víða um land hefðu skotið upp kollinum. „Það er verið að reyna að finna nýja staði eins og þetta hafi aldrei verði rætt áður,“ sagði hún.
Það sama eigi við um jarðhræringarnar. „Það er heldur ekki eins og þær séu að koma í gær. Það var alltaf vitað að þær hæfust og yrðu næstu 200-400 árin.“
Jónína benti á að íslensku varaflugvellirnir myndu við núverandi aðstæður eiga fullt í gangi með að taka á móti vélum ef Keflavík lokaðist á háannatíma. Við bætist flug inn til þessara staða, svo sem á vegum Condor til Egilsstaða næsta sumar og hugmyndir um beinan útflutning á fiski þaðan. „Bjartsýnustu segja að eftir 5-7 ár verði orðnar forsendur til að flytja vikulega út ferskan fisk.“
Eyþór Stefánsson, Austurlistanum, sagði að auka þyrfti almenna notkun á vellinum og liðka fyrir millilandaflugi með að jafna eldsneytisverð, en það er í dag dýrara á Egilsstöðum en í Keflavík.
Huga þarf að skipulagi í kringum völlinn
Þröstur Jónsson úr Miðflokknum sagði völlinn alltaf hafa verið vannýttan og tók undir með Eyþóri að fyrsta skrefið í aukinni nýtingu væri að jafna eldsneytiskostnaðinn. Hann talaði um að hafa þyrfti í huga skipulagsmál í kringum völlinn í víðu samhengi. Þannig minnti hann að með að fara með nýjan veg frá Fjarðarheiðargöngum norður fyrir Egilsstaði næðist styttri tenging milli hafnarinnar á Seyðisfirði og vallarins. „Það er algjör háski að fara suðurleiðina og nýta ekki þau tækifæri sem við höfum til að tengja þessi mannvirki saman,“ sagði hann. Eins væri þar styttri leið fyrir sjúkraflutninga frá Norðfirði þegar búið sé að grafa áfram göng þaðan frá Seyðisfirði.
Þröstur varaði einnig við uppbyggingu íbúðahúsnæðis utan Eyvindarár, svo gott sem ofan í flugvellinum. Slíkt skilaði ekki öðru en lágu fasteignaverði líkt og á Amager í nágrenni Kastrup-flugvallar í Danmörku þar sem hávaðinn frá vélunum þykir ekki aðlaðandi. Þess vegna verði að hraða gerð aðalskipulags. Næst flugvellinum ætti að vera atvinnustarfsemi.