Skip to main content

Tíðindalítil nótt á Eistnaflugi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. júl 2022 11:56Uppfært 08. júl 2022 11:58

Nóttin var tíðindalítil í Neskaupstað þar sem þungarokkshátíðin Eistnaflug hófst í gær. Einhver tjöld og fellivagnar skemmdust þó þar í hvassviðri í gærkvöldi og gestum var komið í skjól í íþróttahúsinu.


Magný Rós Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir að einhver tjöld og ferðavagnar hafi brotnað í rokinu í gærkvöldi á hátíðartjaldsvæðinu úti á Bökkum. Brugðist hafi verið við með að virkja varáætlun, sem sé alltaf til staðar og voru tjaldbúar fluttir inn í íþróttahúsið með aðstoð björgunarsveitarinnar Gerpis.

Þetta hafi þó lítið skyggt á gleðina, gestir hafi skroppið af tónleikum til að til að flytja föggur sínar en mætt síðan á tónleika Sólstafa, eins stærsta númers hátíðarinnar og í metal-karíókí. Nú sé fólk farið að flytja sig aftur á hátíðtíðartjaldsvæðið.

Hjá lögreglu fengust þær upplýsingar að nóttin hefði gengið ágætlega fyrir sig, að öðru leyti en að veðrið hefði sett strik í reikninginn. Einn ökumaður var gripinn grunaður um ölvun og annar án réttinda. Annars vonast lögreglan til að hátíðin haldi áfram á þessum góðu nótum og veðrið verði betra, sem það á að vera samkvæmt spá.

Magný segir veðrið í Neskaupstað fínt, aðeins skýjað og léttur gustur. Stemming sé í hópnum, margir hafi látið vita af því að þeir séu á leið austur í dag. Þó virðist sundlaugin þegar vera orðin stútfull af þungarokkurum.