Töldu þarft að sjá skemmdirnar á Reyðarfirði með eigin augum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. okt 2022 11:10 • Uppfært 11. okt 2022 11:12
Fjögurra manna sendinefnd, sem innihélt meðal annars dómsmálaráðherra, flaug austur á land að kvöldi mánudagsins 26. september til að kanna skemmdir sem orðið höfðu á Reyðarfirði í miklu óveðri þar sólarhringinn á undan. Ráðherra kveðst hafa viljað sjá tjónið með eigin augum til að geta kynnt stöðuna fyrir ríkisstjórninni morguninn eftir.
Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Austurfréttar sem spurðist fyrir um hvað hefði kallað á að ráðherrann væri fluttur sérferð með þyrlu strax að kvöldi mánudagsins frekar en koma morguninn eftir í áætlunarflugi.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra kom ásamt öðrum aðstoðarmanna sinna, fulltrúa úr almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, formanni Slysavarnafélagsins Landsbjargar austur seinni part mánudags.
Í svarinu er staðfest að lent hafi verið á Egilsstöðum og keyrt þaðan til Reyðarfjarðar þar sem áætlunarflug til Austurlands hafi legið niðri. Samkvæmt heimildum Austurfréttar tafði það nokkuð ferðina að ekki var hægt að lenda í Fjarðabyggð eins og upphaflega var áætlað.
Flutti ríkisstjórninni skýrslu
Í svarinu kemur fram að ráðherra hafi ferðast um bæinn með fulltrúa frá björgunarsveitinni Ársól á Reyðarfirði og kynnt sér afleiðingar ofsaveðursins. Ráðherra hafi til dæmis heimsótt slökkvistöð Fjarðabyggðar á Hrauni við Mjóeyrarhöfn sem skemmdist verulega. Þar ræddi hann við bæði starfsmenn slökkviliðs og lögreglu sem ásamt björgunarsveitum hafi unnið mikið björgunarstarf.
Ráðherrann fundaði einnig með fulltrúa Eimskips en húsnæði fyrirtækisins við höfnina var ónothæft að hluta eftir storminn. Fjörutíu feta gámar fuku á haf út og munatjón því umtalsvert. Að lokum var fundað með bæjarráði Fjarðabyggðar þar sem rætt var um afleiðingar ofsaveðursins og viðbrögð sveitarfélagsins í framhaldinu. Fulltrúi ríkislögreglustjóra og formaður Landsbjargar sátu einnig fundina.
Í svarinu segir að tildrög ferðarinnar hafi meðal annars verið þau að ráðherra og helstu viðbragðsaðilar hafi viljað kynna sér afleiðingar veðurofsans með eigin augum og ræða við heimafólk. Ríkisstjórnin fundaði morguninn eftir, þriðjudaginn 27. september, og þar gaf dómsmálaráðherra, sem fer með almannavarnamál, munnlega skýrslu um það sem sást í ferðinni.
„Að mati ráðherra er ljóst að tjón íbúa er umtalsvert, bæði fjárhagslegt og tilfinningalegt. Til þess að geta metið tjón og næstu skref í kjölfar hamfara er í ákveðnum tilvikum nauðsynlegt að sjá aðstæður með eigin augum og ræða við þá sem eru á staðnum. Um er að ræða eitt versta veður sem hefur sést á Íslandi um áratugabil og er það blessun að ekki hafi farið verr,“ segir í svarinu.
Hluti af lögbundnum verkefnum
Austurfrétt kallaði sérstaklega eftir kostnaði við ferðina en ráðuneytið vísaði þeirri fyrirspurn til Landhelgisgæslunnar. Í svari gæslunnar segir að hún hafi í gegnum tíðina „flutt fulltrúa stjórnvalda, almannavarna, björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila á vettvang náttúruhamfara hérlendis enda sé aðstoð við almannavarnir eitt lögbundinna hlutverka hennar.
Kostnaður þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar er metinn á ársgrundvelli en ekki í einstökum lögbundnum verkefnum því áætlanir stofnunarinnar miða að því að þyrlusveitin geti viðhaldið hæfni sinni og færni til leitar-, björgunar og löggæsluflugs hér við land með því að uppfylla lágmarksflugtímaviðmið. Slíkt er gert með æfingum, útköllum og öðrum lögbundnum verkefnum líkt og því sem Landhelgisgæslan sinnti þennan dag.
Ljóst er hins vegar að ferð ráðherrans mæltist misvel fyrir meðal Reyðfirðinga sem Austurfrétt hefur rætt við. Einn sagðist vart hafa trúað eigin eyrum þegar hann heyrði af því að ráðherrann væri á leiðinni. Á mánudeginum hafi heimafólk haft nóg annað að gera, ýmis verið að loka húsum eða ná utan um stöðuna. Þá hafi takmarkað verið hægt að sjá þar sem hersingin kom ekki á Reyðarfjörð fyrr en komið var fram undir myrkur.
Staðan við Mjóeyrarhöfn að morgni þriðjudagsins 27. september.