Tvær bílveltur á föstudag
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. sep 2022 16:06 • Uppfært 05. sep 2022 16:07
Tvær bílveltur urðu í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi seinni part föstudags. Fólkið í bílunum virðist hafa sloppið með minni háttar meiðsli.
Fyrra atvikið átti sér stað á Möðrudalsöræfum þar sem bifreið fór út af í þoku og um tíu metra út fyrir veg. Tveir einstaklingar voru í bílnum og voru þeir fluttir lítillega slasaðir á Sjúkrahúsið á Akureyri. Bíllinn skemmdist mikið.
Hitt atvikið átti sér stað á Fagradal. Þar valt bíll skammt út fyrir veg og endaði á þakinu. Ökumaður var einn í bílnum og virðist hafa sloppið óslasaður. Tildrög slyssins eru ókunn.
Helgin var að öðru leyti stórtíðindalaus í umdæminu.