Skip to main content

Tveir þriðju nemenda við Verkmenntaskóla Austurlands í fjarnámi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. ágú 2022 10:11Uppfært 18. ágú 2022 10:19

„Sé miðað við hausatölu þá er meirihluti þeirra sem skráðir eru í nám hjá okkur í vetur að stunda fjarnám,“ segir Hafliði Hinriksson, skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands.

Senn líður að nýju skólaári hjá skólum austanlands sem annars staðar. Í Verkmenntaskólanum í Neskaupstað stendur til að bjóða alla nýnema velkomna í vikunni áður en formleg skólasetning fer fram þann 22. september og kennsla hefst að nýju eftir sumarfrí.

Hafliði segir heildarnemendafjöldi við skólann nú mjög svipaðan því sem verið hefur síðastliðin ár. Alls verða dagnemendur kringum 120 talsins en heildarfjöldi nemenda eru alls 320. Það er því stór meirihluti sem nemur sitt í fjarnámi en á það ber að líta að það fólk er ekki allt í fullu námi.

„Það er býsna drjúgt hlutfall nemenda í fjarnámi hjá okkur. Þetta er fólk sem kemur víða að og ekki einskorðað við Austurland. Við erum með sjúkraliðanám og sérstaka þjónustubraut fyrir leikskólaliða og stuðningsfulltrúa í grunnskólum og það er fólk hvaðanæva að að stunda þær greinar.“

Hafliði segir skólann ekki gera kröfu um beina viðveru í fjarnámi en sem dæmi um sjúkraliðabrautina þá er það nám kennt í samstarfi við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra og Menntaskólann á Ísafirði.