Skip to main content

Tvö umferðaróhöpp í Berufirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. júl 2022 10:20Uppfært 05. júl 2022 10:50

Tvö umferðaróhöpp urðu á vegum við Berufirði í gær. Lögreglan á Austurlandi heimsótti í síðustu viku gisti- og veitingastaði til að kanna leyfismál þeirra sem starfsmanna. Langflest reyndust í góðu lagi.


Annars vegar valt húsbíll í norðanverðum Berufirði, hins vegar fór bíll út af í lausamöl við afleggjarann uppi á Öxi. Í hvorugu tilfellinu slasaðist fólk.

Síðasta helgi var að mestu róleg hjá lögreglunni á Austurlandi. Framundan eru þó stórar helgar með bæjarhátíðum og er undirbúningur að löggæslu fyrir þær í gangi í samstarfi við skipuleggjendur.

Lögreglan, Ríkisskattstjóri og Vinnueftirlitið gengust í síðustu viku fyrir könnun á rekstrarleyfum veitinga- og gististaða sem og leyfum erlends starfsfólks til dvalar og atvinnu hérlendis. Ellefu staðir voru heimsóttir og rætt við um hundrað starfsmenn.

Leyfi alls starfsfólks voru í lagi en hins vegar komu upp athugasemdir við rekstrarleyfi tveggja staða. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru þau mál áfram í vinnslu.