Um 118 milljónir í austfirska ferðamannastaði

Ellefu verkefni á Austurlandi fengu samanlagt tæplega 118 milljónir króna við síðustu úthlutum úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Hæsti einstaki styrkurinn var til framkvæmda við Stuðlagil á Jökuldal.

Tveir styrkir voru veittir til framkvæmda við gilið. Annars vegar 31,25 milljónir til ábúenda á Klausturseli til að útbúa útsýnis- og áningarstaða á austurbakka gilsins auk þess að bæta öryggi. Til stendur að hanna og gera áningarstaði í landi Klaustursels auk þess að koma upp varanlegum varúðar- og upplýsingaskiltum þar sem varað verði við hættum eins og grjóthruni um leið og ferðafólk verði frætt um sögu og menningu svæðisins.

Hinu megin gilsins fékk Jökuldalur slf. 22,6 milljónir til að ljúka yfirborðsvinnu við aðkomu til að auka öryggi gesta. Slitlag verður sett á bílastæði og stíga, málaðar merkingar og komið upp handriði til að koma í veg fyrir að hægt sé að keyra fram af planinu.

Múlaþing fékk 24 milljónir til að vinna að hönnun vinningstillögu úr hugmyndasamkeppni um útsýnissvæði á Bjólfi, ofan Seyðisfjarðar.

Gönguklúbbur Seyðisfjarðar fékk 2,7 milljónir til að setja göngubrú yfir Selsstaðaá í Kolstaðardal en félagið hefur undanfarið ár unnið að bættu öryggi á gönguleiðinni milli Seyðisfjarðar og Loðmundarfjarðar. Huga þarf að því að brúin falli sem best inn í umhverfi staðarins. Hana þarf síðan að hífa á með þyrlu.

Ferðaþjónustan á Bragðavöllum í Hamarsfirði fékk 20,9 milljónir til að byggja upp upplýsinga- og salernisaðstöðu við enda göngustígs frá bænum þar sem pallar við Snædalsfoss byrjar.

Ferðaþjónustan í Fossárdal í Berufirði fékk 1,5 milljón til að hanna og gera kostnaðaráætlun vegna útsýnispalla við Nykurhylsfoss og Vondásfoss í Fossárvík. Verkefnið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingu áningarstaðar í víkinni samkvæmt deiliskipulagi.

Þrjú verkefni í Fjarðabyggð fengu styrk úr sjóðnum. Sá hæsti, 8,85 milljónir, fer til að stækka bílastæði við Franska grafreitinn í Fáskrúðsfirði auk þess að laga þar stíga og girðingu. Í náttúruvernd við Streitishvarf fara 2,8 milljónir og 2,25 milljónir í að undirbúa framkvæmdir við stíga og palla við Búðarárfoss.

Fljótsdalshreppur fékk styrk í tvö verkefni. Annars vegar 7,5 milljónir í að leggja nýja göngustíga við Hengifoss og viðhalda eldri, auk þess að bæta merkingar, afmarka útsýnisstaði, draga úr gróðurskemmdum og auka öryggi göngufólks. Hins vegar eina milljón í að endurnýja gólf og handrið á göngubrú yfir Fellsá. Brúin er mikilvæg fyrir þá sem vilja skoða Strútsfoss að innanverðu eða ganga lengra inn Suðurdal.

Alls var úthlutað 584 milljónum til 54 verkefna úr sjóðnum. Hæsti einstaki styrkurinn var 55 milljónir. Umsóknir voru 154, þar af 24 frá Austurlandi sem átti næst flestar umsóknir á eftir Suðurlandi. Úthlutunarhlutfall austfirsku umsóknanna var einnig gott, tæpur helmingur sem þýðir næst hæsta hlutfallið og næst mesti fjöldinn á eftir Suðurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.