Undirbúa kynningu á heildarkröfum á þjóðlendum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. ágú 2022 09:21 • Uppfært 16. ágú 2022 09:23
Óbyggðanefnd hefur móttekið gagnkröfur vegna þjóðlendukrafa sem nefndin hafði lýst í 26 svæði innan Múlaþings og Fjarðabyggðar. Áætlað er að úrskurðir í málunum liggi fyrir í lok næsta árs.
Óbyggðanefnd var sett á laggirnar um síðustu aldamót til að eyða eyða óvissu um eignarrétt lands. Landinu var skipt upp í 17 landssvæði og á næstu 20 árum var úrskurðað í 66 málum á 14 svæðum sem ná yfir 91% landsins. Vestfirðir og Austfirðir voru tvö af þeim svæðum sem eftir voru. Nefndin lýsti kröfum í svæði þar í janúar.
Svæðin sem gerð eru kröfur um eystra eru: Oddsdalur, Fannardalur, suðurhluti Eyvindarárdals, svæði í kringum Gíslastaði og gerði, Hjálpleysa, Gilsárdalsafrétt, Geitdalsafrétt, Búðartungur, Múlaafrétt, Hamarsbætur, Ljósárland, Geithellnadalur, Hjálmarsströnd, Innri- og Ytri-Álftavík, Herjólfsvík, Hvalvík, Hraundalur og Kirkjutungur, afréttir Hólalands og Hvannstóðar, afréttarland Gilsárvalla, Desjarmýrarafrétt, Hrafnabjargarafrétt, Ósafrétt og Grasdalur auk Hofsjökuls og Staðarafréttar.
Í júní bárust síðan gagnkröfur. Kort með kröfulínum allra málsaðila má finna á vef óbyggðanefndar. Samkvæmt upplýsingum frá óbyggðanefnder næst á dagskrá formleg kynning á heildarkröfum, sem sett verði af stað í haust.
Kerfisbundinni gagnaöflum nefndarinnar, sem Þjóðskjalasafnið annast að mestu, á að ljúka í mars á næsta ári þegar safnið skilar sögulegri greinargerð. Næsta sumar verður síðan nýtt til vettvangsferða.
Aðalmeðferð, þar sem skýrslur eru teknar og mál flutt munnlega, verður annað hvort haldin um leið og vettvangsferðirnar eða síðar. Stefnt er að úrskurðir verði kveðnir upp fyrir lok árs 2023.