Skip to main content

Úthluta fé austur á land til kaupa á nýju sneiðmyndatæki

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. okt 2022 09:50Uppfært 06. okt 2022 11:06

„Samkvæmt minni trú er tækið fullfjármagnað en nú fer í gang útboðsferli og þegar kaupin verða gerð þá verður það sett upp á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA.)

Tilkynnt var í dag af hálfu heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni, að HAS hafi verið úthlutað 80 milljónum króna til kaupa á nýju tölvusneiðmyndatæki en Austurland er síðasti landshlutinn til að fá slíkt tæki sem mun auka öryggi við greiningu og meðferð sjúklinga allra í umdæminu. Þannig á að vera hægt að þjónusta sjúklinga í heimabyggð og koma í veg fyrir ferðalög, fyrirhöfn og kostnað Austfirðinga.

Að sögn Guðjóns er þó spotti eftir áður en öll púslin falla á sinn stað í ferlinu. Bæði þarf útboðsferlið að klárast og svo þarf töluvert pláss fyrir slíkt tæki á sjúkrahúsinu í Neskaupstað.

„Þetta er ekkert sem er að gerast á morgun neitt en stórt og gott framfaraskref fyrir okkur hér.“

Tölvusneiðmyndatæki er engin smásmíði eins og sjá má á myndinni en auðveldar vinnu lækna verulega og minnkar fyrirhöfn og ferðalög sjúklinga. Mynd LSH.