Vanda þarf betur til en síðast þegar sýslumannsembættunum var breytt
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. ágú 2022 18:02 • Uppfært 30. ágú 2022 18:02
Samband sveitarfélaga á Austurlandi vonast til að lært verði af biturri reynslu ef haldið verður áfram með hugmyndir um sameiningar sýslumannsembættanna á landsvísu. Síðustu breytingar hafi verið illa undirbúnað og vanfjármagnaðar.
Þetta kemur fram í umsögn SSA um drög dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um sýslumann. Gert er ráð fyrir að embættin níu verði sameinuð í eitt en áfram með dreifða starfsemi um landið. Á þetta að vera til að einfalda vinnu, spara fé en samt embættin, til dæmis með nýjum verkefnum.
Svipuð fyrirheit voru gefin við síðustu sameiningu embættanna sem lögfest var árið 2014. Í umsögn SSA er hins vegar vísað til seinni tíma úttekta um að þær aðgerðir hafi mislukkast út af ónógum undirbúningi, óraunhæfra væntinga og skorti á fjármagni.
Það hafi orðið til þess að til dæmis sýslumaðurinn á Austurlandi búi nú við átta ára rekstrarvanda sem haft hafi veruleg áhrif á starfsemi og mönnun. SSA bendir á að varnaðarorð í umsögnum um þær breytingar hafi ræst og séu enn í gildi. „Það tókst ekki betur til en svo að nú virðumst við standa á sama stað,“ segir í umsögninni.
SSA telur bæði varasamt að færa opinbert vald fjær þegnunum auk þess sem sýslumannsembættin séu mikilvægar þekkingarstofnanir á sínum svæðum sem oft fjalli um persónuleg málefni fólks á erfiðum stundum, svo sem dánarbú, nauðgunarsölur auk umboðs fyrir Sjúkratryggingar.
Í ljósi sögunnar sé mikilvægt að læra reynslunni og vanda undirbúninginn betur með skýrum markmiðum. Fyrirheit um sterkari einingar lofi góður en betur þurfi að kynna hvernig því markmiði verði náð. Eins sé mikilvægt að tryggja fjárhagslegan aðbúnað svo breytingarnar verði raunverulega til batnaðar.