Skip to main content

Varað við rigningu í kvöld og næstu daga

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. nóv 2022 17:12Uppfært 08. nóv 2022 17:14

Ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands hefur sent frá sér viðvörun vegna mikillar úrkomu á norðanverðum Austfjörðum í kvöld og næstu daga. Fylgst verður með aðstæðum á Seyðisfirði en þar er ekki talin ástæða til aðgerða.


Samkvæm tilkynningu má búast við allt að 50 mm úrkomu í byggð. Úrkomuákefðin verður mest 4-6 mm á láglendi og hiti 0-5°C. Því er búist við rigningu í byggð en snjó til fjalla.

Á Seyðisfirði er búist við að uppsöfnuð úrkoma til fjalla verði innan við 100 mm en um 40 mm á láglendi. Um miðnætti styttir upp en aftur byrjar að rigna seinna í nótt. Ekki er búist við að aftur stytti upp fyrr en á föstudag. Á þessum tíma er spáð 3-5°C hita og því búist við rigningu í byggð en snjókomu til fjalla.

Grunnvatnsstaða í borholum þar hefur hækkað eftir úrkomu síðustu daga en er þó enn frekar lág í þeim flestum. Ekki er því talin ástæða til sérstakra aðgerða vegna skriðuhættu þótt áfram verði fylgst náið með aðstæðum.

Annars staðar á svæðinu er einnig von á áframhaldandi rigningu næstu daga, upp undir 100 mm uppsöfnuð úrkoma en ekki er spáð mikilli ákefð.