Skip to main content

Varasamar aðstæður á Snæfelli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. ágú 2022 13:20Uppfært 26. ágú 2022 16:10

Jökulsprunga hefur komið í ljós á gönguleiðinni upp Snæfell. Aðstæður þar verða kannaðar þegar veður leyfir. Göngumaður slapp ómeiddur er hann féll í djúpa sprunguna.


„Þetta virðist vera alvöru sprunga. Hópurinn sem þarna var á ferð telur hana vera um tíu metra djúpa og af myndum af dæma er þvermálið tæpur metri. Síðan vitum við ekki hversu löng hún er,“ segir Þórhallur Jóhannsson, landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði.

Hann segir það hafa viljað til happs að hópurinn var vel út búinn og með mikla reynslu þannig allir voru í línu er maðurinn féll ofan í.

Þórhallur segir ekki hægt að banna fólki að leggja á fjallið en rétt að viðhafa ströng varnaðarorð. „Fólk fer á sína eigin ábyrgð en það er alltof hættulegt að fólk án fjallareynslu eða tilheyrandi búnaðar fari á fjallið.“

Þoka hefur verið á fjallinu síðustu daga. Landverðir munu taka stöðuna þegar veður leyfir. „Við erum svo heppin að hafa hér landverði með jöklaréttindi og búnað. Við höfum hugsað okkur að fara upp til að kanna aðstæður um helgina. Við reynum síðan að miðla upplýsingum eins vel og hægt er.“

Snæfell er hæsta fjall utan jökla á Íslandi og vinsælt til göngu vegna þess. „Alla jafna er gangan tiltölulega auðveld og krefst ekki mikils útbúnaðar. Frá toppnum sést svo langt sem augað eygir í góðu veðri. Þú sérð yfir Vatnajökul, að Hvannadalshnjúk, niður í sjó í Lóni og fjöllin í kring. Þetta er stórfenglegt útsýni,“ segir Þórhallur sem er búinn að fara sína árlegu ferð upp fjallið í ár.

Hann segir aðstæður á fjallinu í sumar hafa verið ágætar til göngu en færra fólk hafi lagt á fjallið en í fyrra þar sem veðrið og þar með útsýnið hafi ekki verið nærri jafn gott.

„Fönnin á jöklinum hefur ekki verið mjög hörð og tiltölulegar góðar aðstæður til göngu í sumar þótt það hafi snjóað öðru hvoru. Þess vegna kom okkur mjög á óvart að það skyldi opnast sprunga.“

Stuttir brattir skriðjöklar eru í hlíðum Snæfells. Þórhallur segir að skoða verði sprunguna vandlega því hún bendi til breytinga á aðstæðum. „Það er greinilega einhver hreyfing á jöklinum og spurning hvað kemur í ljós á næstu árum.“

Þórhallur segir að óvenju margir hafi rennt sér á skíðum niður fjallið í sumar. Nú hefur hins vegar verið gefin út viðvörun vegna þess þar sem á norðurhlíðinni sé þunnt topplag með krapa undir og nógu brattar hlíðar þannig að snjóflóð geti farið af stað.