Vatnshæð í borholum í Seyðisfirði að hækka en ekki talin þörf á rýmingu

Vatnshæð í borholum fyrir ofan Seyðisfjörð hefur hækkað á nýjan leik síðasta sólarhring eftir að hafa lækkað eftir helgina. Ekki er ástæða til að rýma að svo stöddu.

Þetta kemur fram í mati Veðurstofu Íslands á aðstæðum við Seyðisfjörð þennan daginn en rignt hefur duglega austanlands síðasta sólarhring og spár gera ráð fyrir áframhaldandi votviðri. Sem kunnugt er var lýst yfir óvissustigi vegna skriðuhættu síðdegis í gær.

Rúmlega 60 mm höfðu skilað sér í mæla á Seyðisfirði fyrr í dag og úrkoman hvað mest í Neðri-Botnum að því er fram kemur á bloggsíðu Veðurstofu Íslands. Mæld hreyfing á Búðarhrygg síðasta sólarhring reyndist 2 til 5 mm en lítil eða engin hreyfing í Þófanum.

Búast má við allt að og jafnvel yfir 80 mm á Seyðisfirði fram á laugardaginn. Mikið mun rigna næsta sólarhring áður en aðeins dregur úr en úrkoma þó viðvarandi allan morgundaginn samkvæmt spám. Skil ganga svo yfir Austurland á laugardag með austlægri átt og standa vonir til að það dragi úr úrkomu.

Veðurstofan varar við vinnu fólks við læki eða skriðufarvegi og mælt er gegn umferð fólks við slíka farvegi. Sérstaklega á það við um svæðið við Búðará þar sem hryggurinn innan við upptök skriðunnar 2020 hefur hreyfst og yfirborðsjarðlög kunna að vera óstöðug.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.