Veðurviðvaranir framlengdar og vegum lokað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. sep 2022 11:28 • Uppfært 25. sep 2022 11:30
Búið er að loka vegum frá Kirkjubæjarklaustri í suðri að Fáskrúðsfirði og Skriðdal í austri. Viðvaranir vegna hvassviðris hafa verið framlengdar til morguns.
Vegagerðin lokaði upp úr klukkan átta í morgun austur á Djúpavog. Upp úr klukkan ellefu var lokað áfram til Fáskrúðsfjarðar sem og yfir Öxi og Breiðdalsheiði. Óveður er á Fagradal, Fjarðarheiði, Jökuldal, Vopnafjarðarheiði og Möðrudalsöræfum. Éljagangur er á síðastnefnda veginum.
Rauð veðurviðvörun gengur í gildi á hádegi í dag fyrir Austfirði. Á þeim tíma er búist við hviðum upp á 40 m/s í byggð en allt upp í 60 m/s annars staðar á svæðinu. Viðvörunin er í gildi til níu í kvöld, þá tekur við appelsínugul viðvörun til klukkan tvö á morgun. Á þeim tíma er spáð norðvestan 23-28 m/s og hviðum yfir 40 m/s. Ekkert ferðaveður verður þann tíma sem viðvaranirnar verða í gildi.
Á Austurlandi að Glettingi tók appelsínugul viðvörun gildi klukkan tíu í morgun og stendur til miðnættis. Spáð er norðvestan 20-28 m/s og líkur á slyddu eða snjókomu til fjalla með versnandi ferð á fjallvegum. Gul viðvörun hefur verið gefin út frá miðnætti til klukkan tvö á morgun. Er þá spáð norðvestan 14-23 m/s sem er varasamt ökutækjum sem taka á sig vind.
Allt flug austur í Egilsstaði í dag hefur verið fellt niður. Björgunarsveitir og fleiri eru í viðbragðsstöðu. Einhver útköll hafa þegar verið vegna foktjóns.
Aðgerðastjórn er á fundi. Tilkynningar er að vænta eftir hádegi.
Mynd úr safni. Björgunarsveitin Bára.