Vel fylgst með vatnavöxtum og fjallshlíðum

Fulltrúar almannavarna á Austurlandi fylgjast með þekktum skriðusvæðum í ljósi mikillar úrkomu síðustu daga. Enn sem komið er virðist náttúran ráða við rigninguna.

„Miðað við þá úrkomu sem verið hefur og er spáð þá virðast fjallshlíðar og lækjarfarvegir hafa vel undan. Það er mjög vel fylgst með, sérstaklega þekktum skriðusvæðum, bæði með mælum og svo af eftirlitsmönnum Veðurstofu,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.

Vatnsyfirborð Lagarfljóts við Fellabæ hefur hækkað um tvo metra síðan á mánudagsmorgunn. Kristján Ólafur segir engar áhyggjur af brúnni milli Egilsstaða og Fellabæjar né heldur lögnum sem í henni eru.

Ítarlega er fylgst með ástandinu á Seyðisfirði og Eskifirði í ljósi atburða sem urðu á báðum stöðum í desember 2020. Samkvæmt yfirliti Veðurstofunnar var úrkoma á Seyðisfirði síðasta sólarhringinn um 30 mm., sem var þó aðeins rúmur helmingur þess sem spáð var. Þar af komu 20 mm. frá hádegi til klukkan fimm í gærdag.

Næsta sólarhring er spáð allt að 50 mm. úrkomu og allt að 100 mm. fram á sunnudag. Vindur á áfram að vera úr austri eða suðaustri sem heldur getur dregið úr úrkomunni. Engar hreyfingar hafa mælst á fjallshlíðum en vatnsstaða í borholum er há og hækkaði lítillega í gær.

Á Eskifirði er einnig spáð allt að 100 mm. úrkomu yfir helgina. Þar mældist hún 18 mm. síðasta sólarhringinn í bænum en er talin minni út með firðinum. Grunnvatnsstaða í borholu í Kolabotnum er svipuð og eftir úrkomutíð í byrjun október. Hún lækkar sýnilega í hvert sem sem styttir upp. Vatnsstaðan er lægri í borholu í beygju á Oddsskarðsvegi. Aflögunarmælar eru einnig á báðum stöðum, færslan er um 2 mm. sem telst óverulegt og virðist heldur vera að hægjast á henni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.