Verðlauna hönnuði Baugs Bjólfs í Herðubreið
„Þarna verður verkefnið kynnt í þaula fyrir sveitarstjórnarmönnum og jafnframt ætlar Múlaþing að veita hönnuðum verðlaun sín fyrir að vinna hönnunarsamkeppnina á sínum tíma,“ segir Heiðdís Hólm Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Múlaþingi.
Á þriðjudaginn kemur verður hönnuðum útsýnispallsins Baugs Bjólfs sem reisa skal á Bjólfi við snjóflóðavarnargarðana fyrir ofan Seyðisfjörð loks veitt verðlaun sín fyrir verkið en samkeppni var á síðasta ári um bestu tillöguna. Aldrei tókst þó að halda formlega athöfn þegar vinningstillagan var kynnt en úr því skal bætt í næstu viku.
Vinningstillagan var unnin í þverfaglegu samstarfi sem að komu Ástríður Birna Árnadóttir og Stefanía Helga Pálmarsdóttir frá Arkibygg sem aðalhönnuðir en jafnframt þau Anna Kristín Guðmundsdóttir og Kjartan Mogensen landslagsarkitektar, Auður Heiðarsdóttir frá ESJU Architecture auk Arnars Björns Björnssonar sem sá um burðarvirkjahönnun.
Heiðdís tekur fram að verið sé að kanna möguleika á að streyma frá kynningunni og verður það auglýst ef það gengur eftir.